154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að hafa um þetta mörg orð, við vitum að ástandið á Gaza-ströndinni er hryllilegra en orð fá lýst. Við vitum auðvitað ekki nákvæmlega hversu margir hafa fallið í árásum Ísraelshers á svæðið en við vitum þó að það eru þúsundir. Og við vitum líka að inni í þeirri tölu eru þúsundir barna. Við hljótum öll að geta tengt við að þetta er algerlega óásættanlegt, ólíðandi og við hljótum að fordæma að þannig sé ástandið. Við höfum séð fréttamyndirnar, við höfum heyrt og lesið lýsingarnar og það er algerlega morgunljóst að Gaza er helvíti á jörð; sprengjur falla, fólk deyr, börn deyja, fjölskyldur missa heimili sín og ofan á þann hrylling bætist að það er ekki hægt að flýja svæðið með góðu móti. Fólk er innilokað í sprengjuregni. Það á sér ekkert skjól, það sefur undir berum himni og vonar það besta. Ég er ekki að tala um hryðjuverkamenn hér, ég er að tala um óbreytta borgara, ég er að tala um feður og mæður, syni og dætur. Fólk eins og okkur öll. Þessi slátrun er algjörlega ólíðandi. Það er algerlega óverjandi að varpa sprengjum á flóttamannabúðir og að sjúkraflutningamenn og læknar og aðrir sem reyna að hjálpa deyjandi fólki falli við þau störf sín. Það á ekki að sprengja skóla, það á ekki að sprengja spítala. Við eigum að fordæma þetta allt.

Við hljótum líka að fordæma það mjög sterkt og einbeitt þegar hryðjuverkamenn fara um og myrða fjölskyldur, börn og ungmenni, í hundraðatali, ungmenni sem eru á skemmtun að dansa fyrir friði. Sá hryllingur var algjörlega þess eðlis að við hljótum öll að geta fordæmt það. Þetta voru grimmdarverk. Þetta voru skipulögð og yfirveguð grimmdarverk, ekkert annað, og það er ekki hægt að réttlæta þau með tilvísun í söguna. Það á einfaldlega ekki að drepa konur, börn, saklaust fólk eins og okkur öll, svoleiðis er það bara.

Það voru teknir gíslar sem eru enn í haldi og við getum reynt að ímynda okkur hvernig þeim líður akkúrat á þessari stundu, hvaða tilfinningar bærast innra með þeim: Munu þeir lifa þennan hildarleik af eða ekki? Við hljótum að krefjast þess og eigum öll að geta verið sammála um að við eigum að leggja mikla áherslu á að þessum gíslum verði tafarlaust sleppt.

Við erum auðvitað öll mjög vanmáttug gagnvart þessum ósköpum og þessu mikla mannfalli á báða bóga. Það eru jú þúsundir að deyja. Það sem við getum gert sem þjóð er að sameinast og tala einni röddu. Við eigum alltaf að standa með almennum borgurum. Við eigum að standa með fólki sem hefur ekkert gert annað en að vera á röngum stað á röngum tíma. Þetta eru þolendur í hildarleik sem hefur staðið yfir allt of lengi. Við hljótum alltaf að standa með óbreyttum borgurum, alveg sama hvaða skoðun við höfum á þessum langvinnu átökum og deilum og stríði sem er þarna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þingflokkur Viðreisnar lagði fram þingsályktunartillögu í vikunni. Þar lögðum við til að Alþingi kallaði eftir tafarlausu mannúðarhléi svo koma megi neyðarvistum til fólks sem á um sárt að binda á Gaza-ströndinni. Þar voru jafnframt fordæmd þau hryðjuverk sem Hamas-samtökin frömdu og svo árásir Ísraels í kjölfarið gegn almennum borgurum og á borgaralega innviði á Gaza. Þá var þess krafist í ályktuninni að gíslum yrði sleppt og að Ísland beitti sér fyrir því að mannréttindi séu ávallt virt og lausn fundin á átökunum, varanleg lausn.

Tillaga Viðreisnar var efnislega samhljóða því sem lá fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum og hefði orðið raunin ef breytingartillaga Kanada hefði fallið inn í þá tillögu frá Jórdaníu sem lá fyrir þinginu. Ástæðan fyrir því að við lögðum þetta fram var ofur einfaldlega sú að við töldum að þetta væri eina leiðin til þess að sameina flokkana á Alþingi. Það var brýnt að gera það vegna þess að við sáum auðvitað í eftirleik þessarar atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum að ríkisstjórnin talaði ekki einni röddu. Það hljótum við að undirstrika mjög sterkt að gengur auðvitað ekki upp. Við vorum sem sagt að reyna að finna einhverja leið til þess að sameina fólk hér á Íslandi, flokkana á þingi, og þá var þessi leið sem ég lýsti hér áðan auðvitað best til þess fallin.

Við hljótum að gera þá kröfu til ráðherra í ríkisstjórn á hverjum tíma, ekki síst forsætisráðherra og utanríkisráðherra, jafnvel þótt þeir komi úr sitthvorum flokknum, jafnvel þótt annar ráðherrann sé hægri maður og hinn ráðherrann vinstri maður, að það gerist ekki eftir svona atkvæðagreiðslu að ráðuneytin og ráðherrar sendi frá sér yfirlýsingar eftir yfirlýsingar til að leiðrétta hvor annan og henda á milli sín ábyrgðinni á niðurstöðunni sem varð hjá Sameinuðu þjóðunum eins og heitri kartöflu. Það er ekkert betur til þess fallið að sundra okkur í þeirri viðleitni okkar að fordæma það að óbreyttir borgarar falli en svona hegðun æðstu ráðamanna. Það er algerlega óverjandi að ríkisstjórn tali ekki einu máli á alþjóðavettvangi í svona erfiðu máli þar sem þúsundir mannslífa eru í húfi. Það var því mjög ánægjulegt, verð ég að segja og ætla að leyfa mér að segja það, að þingið hafi reynst stærra en ríkisstjórnin í gær því að það náðist sátt í utanríkismálanefnd um nákvæmlega þetta, að við sameinuðust í því að fordæma öll óhæfuverk gegn saklausu fólki, að við kölluðum eftir lausn gísla, að við kölluðum eftir því að fólki í neyð yrði hjálpað og bjargað og að Ísland beitti sér fyrir því að varanleg lausn yrði fundin á deilunni.

Ég fagna því mjög og eins og ég segi þá tel ég að hér hafi þingið reynst stærra og mikilvægara en ríkisstjórnin. Það skiptir nefnilega máli að við tölum einum rómi skýrt og ákveðið því að það er það eina sem við höfum á alþjóðavettvangi, Íslendingar, það er rödd. Sú rödd getur verið sterk og hávær ef við sættumst um hvað segja á. Við hljótum auðvitað að tala fyrir því að í varanlegri lausn á þessu svæði sé gert ráð fyrir því að bæði ríkin sem þarna eru undir eigi sér tilverurétt. Það hljótum við að gera. Við munum áfram og eigum áfram að standa með almennum borgurum á átakasvæðum og reyna eftir fremsta megni að sætta sjónarmið, rétt eins og við erum að gera hér á Alþingi Íslendinga, til þess að við getum talað einni háværri og skýrri röddu á alþjóðavettvangi. Við stöndum með óbreyttum borgurum alveg sama hvert þjóðernið er, alltaf.