154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:27]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja fram þetta mikilvæga frumvarp. Mig langar að fara bara beint í spurninguna. Hæstv. forsætisráðherra talaði um að það væri ekki loku fyrir það skotið, þrátt fyrir að hér væri verið að búa til almenna leið til að sækja sanngirnisbætur, að það yrðu gerðar sértækar rannsóknir á ákveðnum stofnunum eða heimilum. Nú hef ég sjálfur í tvígang lagt fram þingsályktunartillögu um rannsókn á Kleppjárnsreykjum, tillögu sem er í raun að koma fram í þriðja skipti. Í fyrsta skipti var m.a. hæstv. forsætisráðherra einn af flutningsmönnum tillögunnar. Í haust, þegar það mál kom upp í fjölmiðlum eftir að ég lagði það fram, var hæstv. forsætisráðherra innt eftir því hvort hún væri samþykk þessu máli. Mig langaði hreinlega að vita hvort hæstv. forsætisráðherra væri enn á því að það væri vel til þess fallið að fara í þá rannsókn þrátt fyrir að það sé orðið ansi langt um liðið frá því að þessi atvik gerðust, sér í lagi af því að þarna er bara smánarblettur á íslenskri sögu sem við þurfum að gera upp. Það er ekki einu sinni víst að það sé neinn eftirlifandi sem gæti nýtt þessa ákveðnu þingsályktunartillögu. Þarna er mjög mikilvægt að við gerum upp fortíðina sem fyrst. Mig langaði bara að spyrja: Er hæstv. forsætisráðherra enn tilbúin að styðja það að sú rannsókn fari fram?