154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Það virðist vera í þessu máli að þá geti einstaklingur, eftir að hafa leitað úrræða fyrir dómstólum og krafan er fyrnd, leitað til nefndarinnar vegna stofnunar sem er allt í lagi með, háttsemi eða starfsemi stofnunar er alveg í lagi en þessi einstaklingur hafi orðið fyrir tjóni, ekki vegna kerfisbundins vanda hjá stofnuninni heldur vegna þess að hann sem einstaklingur varð fyrir einstökum skaða vegna háttsemi stofnunar í einstöku tilviki en sú krafa er bara fyrnd. Mér finnst svolítið vanta á rannsóknarheimild matsnefndar sanngirnisbóta, að hún geti farið dýpra ofan í málin, sé ekki eingöngu að afla gagna heldur líka að búa til gögn sem gætu orðið grundvöllur sanngirnisbóta. Ég vil líka spyrja hvort það sé rétt að nauðsynlegt sé að einstaklingur hafi áður leitað til dómstóla, hvort það sé algjört skilyrði og hvort það þurfi að vera þarna, hvort einstaklingur gæti ekki einfaldlega farið til sanngirnisbótanefndar og sagt: Ég var á þessari stofnun, þessari litlu stofnun X, og ég veit að krafan er fyrnd, það liggur fyrir, ég var þarna fyrir 40 árum, eitthvað svoleiðis, og ég tel óþarfa að fara fyrir dómstóla og vil bara fara beint til sanngirnisbótanefndar. Mér finnst þessi málsmeðferð vera svolítið íþyngjandi fyrir einstaklinginn og væri gott að heyra álit hæstv. forsætisráðherra á þessu atriði.

Annars vil ég taka fram að þetta er mjög áhugavert frumvarp og vel samið. Ég vil líka spyrja hvort fyrirmyndin í Noregi sé ekki líka tekin algerlega hvað varðar málsmeðferðina og málsmeðferð á einstökum málum, hvort sömu sjónarmið eigi ekki að gilda á Íslandi varðandi bætur hér eins og þar.