Bráðabirgðaútgáfa.

154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta frumvarp og fyrir framsöguræðuna. Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri tilraun sem hér er gerð til að ná utan um ofboðslega flókið og erfitt mál. Mig langar að taka undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Jódísi Skúladóttir, um að það þarf líka að horfa til framtíðar.

Við í allsherjar- og menntamálanefnd munum fara vel yfir þetta mál og ég heyrði hér á framsögu forsætisráðherra að það liggur á bak við frumvarpið mjög mikil vinna. Hæstv. ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins hafa hitt og leitað til fjölda aðila til að reyna að ná utan um þetta. Ég held að það sé alveg ljóst að við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þurfum að fara í einhvern svipaðan farveg til að átta okkur betur á því hvort þetta sem hér er lagt til sé besta leiðin til að ná utan um málið.

Við höfum auðvitað á síðustu árum og misserum lesið hryllilegar skýrslur um það hvernig komið hefur verið fram við fólk hér á landi og séð afleiðingar þess í vanlíðan þeirra einstaklinga sem búið hafa við slíkt ofbeldi eða vanrækslu. Mér finnst því full ástæða til að við skoðum þetta vel því það er algerlega nauðsynlegt að ná utan um þetta, og auðvitað er það númer eitt, tvö og þrjú að læra af þeim mistökum sem áður hafa verið gerð. En ég fer ekkert í grafgötur með að það kann að vera full ástæða til þess í einhverjum tilfellum að ríkið bæti upp, eins lítið og peningar geta þó yfirleitt gert þegar að svona málum kemur.

Ég held við verðum líka að velta þessu fyrir okkur með gildissviðið og ég var svolítið hugsi yfir ræðu hv. þm. Jódísar Skúladóttur. Hér erum við í raun að reyna að fara í ákveðið uppgjör við fortíðina en eftir einhver ár verður nútíðin að fortíð. Hvað er það sem við erum að gera í dag og hvernig mun almenn lagasetning eins og sú sem hér liggur fyrir virka inn í langa framtíð? Jú, að sjálfsögðu erum við með ýmsar stofnanir, hvort sem þær eru reknar af ríki, sveitarfélögum eða einkaaðilum með einhverjum samningum, þar sem verið er að annast fólk. Við viljum auðvitað tryggja og eigum að tryggja eftirlit með þeim, alveg óháð því hverjir sinna þeim eða halda utan um slíkan rekstur. Það er auðvitað mjög mikilvægt. En í einhverjum tilfellum erum við líka með fólk sem verður mjög gjarnan fyrir ofbeldi, fatlaða einstaklinga sem eru hvað viðkvæmastir. Við erum sem betur fer að reyna að tryggja fjölbreyttari úrræði í slíkum málum og margir eru í sjálfstæðri búsetu með sína eigin starfsmenn að sinna sér. Hvernig mun það mögulega falla að þessum lögum til framtíðar ef eitthvað fer úrskeiðis í slíkri þjónustu eða í slíku starfi?

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. forsætisráðherra. Ég sé að okkur í allsherjar- og menntamálanefnd mun bíða mikið starf að fara yfir þetta og velta fyrir okkur þessari norsku leið sem hér er vísað í og hvort þetta gildissvið sem hér er og ramminn sem búinn er til utan um þetta muni standast til langrar framtíðar, því að það er ofboðslega stórt skref að setja heildstæðan lagaramma utan um þessi mál. En hugurinn er góður og ég vona svo sannarlega að við náum einhverri góðri lendingu í þessu máli.