154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[12:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum öll fylgst með jarðhræringum við Grindavík síðustu daga og við finnum til með samfélaginu í Grindavík. Þegar hafa orðið umtalsverðar skemmdir á innviðum og mannvirkjum og þrátt fyrir að umfangið sé ekki vitað á þessum tímapunkti er ljóst að okkar bíður risastórt verkefni. Það er því brýnt að Alþingi samþykki í dag löggjöf sem nær utan um það stóra verkefni sem fram undan er. Það er brýnt að það náist breið pólitísk sátt um málið og við sameinumst um að vernda mikilvæga innviði á Reykjanesskaga.

Samhæfing og undirbúningur hafa á undanförnum árum verið lykilþættir í að takast á við áhrif eldgosa og annarra náttúruhamfara og þar spilar Alþingi Íslendinga lykilhlutverk. Markmiðið með lögum um almannavarnir er að endurspegla þá áherslu löggjafans að viðbragðskerfið geti brugðist við áföllum sem ein heild. Reynslan hefur sýnt okkur að það fyrirkomulag og uppbygging á viðbragðskerfi hefur reynst vel og nýtur trausts í samfélaginu. En forsendan fyrir því að kerfið virki sem skyldi er skilvirkt samstarf stjórnsýslustiga og skýrar heimildir til nauðsynlegra framkvæmda í þágu almannavarna. Reynsla undanfarinna ára, t.d. í Bárðarbungu og í Fagradalsfjalli, hafa sýnt okkur að fyrirbyggjandi aðgerðir og undirbúningur geta dregið úr áhættu og verndað líf og eignir. Við þurfum að vera vakandi, undirbúa okkur á öllum sviðum samfélagsins og samhæfa okkur þannig að við getum mótað öruggara umhverfi fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Það er dómsmálaráðherra sem fer með málefni almannavarna og er æðsti yfirmaður almannavarna í landinu. Það er lykilatriði að þær heimildir sem ráðherra eru faldar séu skýrar. Það er nauðsynlegt að hafa skýran lagalegan grundvöll fyrir nauðsynlegum framkvæmdum í þágu almannavarna, t.d. uppbyggingu varnargarða, gerð varnarfyllinga yfir veitumannvirki og gröft leiðarskurða. Allt eru þetta framkvæmdir sem geta skipt sköpum við aðstæður eins og nú eru uppi. Það frumvarp sem hér er rætt um grundvallar mikilvægi þessa og mikilvægi þess að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana vegna þeirra líkinda sem talin eru vera á því að eldgos hefjist á Reykjanesskaga í allra nánustu framtíð.

Frumvarpið er lagt fram í því augnamiði að tryggja að hægt verði að grípa fyrirvaralaust til nauðsynlegra framkvæmda með fyrirbyggjandi hætti til að draga úr eða koma í veg fyrir tjón á mikilvægum innviðum og öðrum almannahagsmunum áður en það er um seinan. Við erum stöðugt minnt á hættuna sem fylgir náttúruöflum og því er mikilvægt að halda áfram og styrkja samstarf milli allra aðila, hvort sem um ræðir ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög eða aðra sem hlut eiga að máli. Þess vegna vil ég ítreka mikilvægi þess samráðs sem fyrirhugað er í frumvarpinu við hlutaðeigandi landeigendur, sveitarfélög og stofnanir og að tekið sé tillit til þessara sjónarmiða við ákvarðanatöku sem þessa.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að breið sátt náist um það frumvarp sem hér er lagt fram. Frumvarpið varðar mjög ríka almannahagsmuni þar sem stjórnvöldum eru veittar nauðsynlegar valdheimildir til að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruvár. Verði frumvarpið að lögum getum við betur tryggt að samfélagið okkar sé ekki einungis viðbúið heldur einnig verndað í þeirri óvissu og áhættu sem náttúruhamfarir geta valdið.