154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti og allir elsku hjartans Grindvíkingar. Hverjum hefði dottið í hug fyrir viku síðan að við ættum eftir að standa í þessari stöðu hér, að horfa upp á þá óvissu sem ríkir í fallega bænum ykkar? Hvernig hefði mér dottið það í hug þegar ég var að syngja með ykkur fyrir fjórum vikum síðan að við stæðum í þessum sporum í dag? En svona er landið okkar. Við búum á eldfjallaeyju og hér erum við að ganga í gegnum óvæntar náttúruhamfarir í formi snjóflóða og eldgosa ítrekað án þess í rauninni að vita það fyrir fram. Það er á þeim tímum sem er ómetanlegt að þingheimur skuli standa saman, að við skulum vera með hug og hjarta hjá ykkur, að við skulum öll hafa hjarta úr gulli, bæði við sem hér störfum og landsmenn allir. En við megum ekki gleyma þeim sem eru einir og hafa þurft að yfirgefa heimili sitt í Grindavík, fólk sem á í rauninni hvergi höfði sínu að halla og er óttaslegið og einmana. Kæru landsmenn, við verðum öll að passa upp á þau líka. Öll okkar viðbragðsteymi, öll sú óeigingjarna fórnfýsi sem allir eru að sýna er ómetanleg og sýnir úr hverju við erum gerð þegar kemur að því að standa saman.

Þess vegna kemur mér svolítið á óvart, og það er líka ágætt að vera ekki alltaf alveg jákvæður við allt og alla endalaust — ég er ósammála þeim þætti hjá ríkisstjórninni að ætla að hækka álögur á fasteignir í landinu. Ég er ósammála því þegar við eigum okkar náttúruhamfaratryggingasjóð sem telur tugi milljarða. Ég er ósammála því þegar við eigum varasjóð til hliðar við ríkissjóð sem telur yfir 30 milljarða. Ég er ósammála því að það sé réttlætanlegt, þó að það hafi lítil áhrif á vísitölu og þróun verðbólgu í landinu, að við skulum í rauninni ekki taka þetta í fangið sjálf hér á hinu háa Alþingi. Ríkisstjórninni ber skylda til þess að sjá til þess að allir séu varðir og allir geti um frjálst höfuð strokið og ef við náum þeim markmiðum sem við stefnum að þá eigum við ekki að nauðsynjalausu að hækka álögur á almenning í landinu. Þannig að ég segi þetta, elsku fólk. Það sem við erum að horfa upp á og takast á við núna og Grindvíkingar sérstaklega — við getum aldrei gert okkur í hugarlund hvernig þeim líður. Ég veit bara að þetta hlýtur að vera svipað og þegar maður missir ástvin allt í einu. Maður er í sorg og maður áttar sig ekki á sorgarferlinu fyrr en löngu síðar. Maður er í afneitun og trúir ekki því sem maður er að lenda í. Hvernig gat þetta komið fyrir mig? En svona er staðan, þannig að fólkið okkar sem hefur þurft að flýja heimili sín er varla enn þá búið að átta sig á því og er enn þá að ganga í gegnum áföll og fleiri sem eiga eftir að koma eftir á. Það er önnur áskorun hér á hinu háa Alþingi, að sjá til þess að öll teymi séu virk og það sé tekið utan um alla í þeim áföllum sem þau eiga eftir að ganga í gegnum. Áfallahjálp fyrir þetta fólk verður að vera 100% tryggð.

Þannig að eins og staðan er í dag þá segi ég: Við eigum nóg fjármagn til að styðja við og styrkja alla innviði og varnargarða og allt gera og við skulum gera það með góðum brag án þess að auka álögur á þjóðina í heild sinni og koma með aukaskattlagningu. Mér finnst hún algerlega óverjandi með öllu á meðan við verðum að standa við það sem okkur er ætlað að gera, að vernda alla landsmenn.

Elsku Grindvíkingar. Ég veit að þið eigið um sárt að binda og ég veit að við erum öll tilbúin að taka utan um ykkur af öllu hjarta. Það eru komnar hjálparstöðvar. Það er ótrúlegt og maður kemst bara við þegar maður sér góðviljann úti í samfélaginu og hvað við erum öllsömul sem ein fjölskylda þegar við eigum um sárt að binda. Þess vegna ítreka ég að þarna eru einstaklingar sem eiga enga að, sem eru að koma frá öðrum löndum og líður mjög illa. Við verðum að passa upp á þau sérstaklega og vera alveg viss um að enginn — enginn — verði skilinn út undan. Þið megið vita það, elsku Grindvíkingar, að við hér á hinu háa Alþingi munum standa með ykkur og halda utan um ykkur sem einn maður á meðan þið gangið í gegnum þetta erfiðleikatímabil. Jólin eru fram undan og okkar ósk er einfaldlega sú að þessi umbrot sem eiga sér stað núna á Reykjanesi hætti bara við allt saman, það kulni í þessu og þetta fjari bara út. Það er í rauninni fallegasta sviðsmyndin sem við getum látið okkur dreyma um en því miður kannski ekki sú sviðsmynd sem við getum byggt á. Það breytir ekki þeirri staðreynd að saman erum við ósigrandi og saman getum við unnið hvað sem er og saman ætlum við líka að sigrast á þessu.