154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:27]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka forsætisráðherra fyrir að koma málinu fram svo fljótt og örugglega sem raun ber vitni. Það er ábyrgðarhlutverk okkar hér á Alþingi á tímum sem þessum að standa saman um stórar ákvarðanir, ákvarðanir sem snerta líf og hag íbúa landsins. Við vitum hvað það þýðir að búa í landi þar sem náttúruöflin láta finna fyrir sér reglulega og minna okkur á hvers þau eru megnug og hver ræður för. Undanfarin ár höfum við séð magnaða samstöðu þjóðarinnar, hvort sem var í heimsfaraldri, skriðuföllum, snjóflóðum eða eldsumbrotum síðustu missera. Fremst þar í flokki eru viðbragðsaðilar, oft sjálfboðaliðar sem leggja sitt daglega líf til hliðar af þeirri hugsjón að hjálpa öðrum þegar svo ber undir. Í ljósi viðburðanna á Reykjanesskaga sjáum við enn og aftur samtakamátt þjóðarinnar. Það að íbúum Grindavíkur hafi verið komið í öruggt skjól verður að teljast einhvers konar björgunarafrek. Við eigum okkar viðbragðsaðilum ótrúlega margt að þakka en ekki síst eiga Grindvíkingar sjálfir mest hrós skilið fyrir rósemi sína og ábyrga frammistöðu á þessum erfiðu tímum.

Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum. Það er engin tilfinning rétt og það er engin tilfinning röng. Það eru engin viðbrögð rétt eða röng við áföllum. Við þurfum að horfa fram á veginn. Við þurfum að takast á við daglegt líf, hlúa hvert að öðru og leggja sérstaklega áherslu á að sinna börnunum sem búa núna við mikla óvissu. Ég treysti því að þingheimur standi saman um að afgreiða þetta mikilvæga mál. Það er frumskylda okkar kjörinna fulltrúa að verja farsæld og velferð þeirra sem verða fyrir barðinu á okkar óblíðu náttúruöflum og einnig að vernda mikilvæga innviði á Reykjanesskaga.