154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hér fer fram í dag og framsögu hæstv. forsætisráðherra. Við sem þekkjum þessa tilfinningu að þurfa að yfirgefa heimili okkar stöndum í hjarta okkar með Grindvíkingum í dag. Það er engin spurning. Þetta þurfti ég sjálfur að gera fyrir 50 árum síðan og við áttum okkur á því, Vestmannaeyingar, í hvaða stöðu þeir eru, enda hafa þeir sent þeim samúðarkveðjur og hvatningu til að starfa með þeim.

Ég vil líka þakka viðbrögð Alþingis og ríkisstjórnarinnar að vilja verja mikilvæga innviði og almannahagsmuni á þessari stundu. Það er gríðarlega mikilvægt að þau skilaboð séu skýr og að þingið afgreiði þetta einróma og að við tökum okkur skamman tíma til þess.

Virðulegur forseti. Í þessari stöðu þurfum við að horfa inn á við, horfa á fjölskylduna, horfa á börnin og afa og ömmu og gefa tíma, láta rykið setjast. Það liggur því ekki alveg á því að koma öllum í skóla sem fyrst. Það liggur mest á því að fjölskyldan sameinist og standi vörð um hvert annað á þessum erfiðu stundum sem nú ganga yfir. Ég veit að það eru margir að leita sér að húsnæði og það er fyrst og fremst það sem þarf að finna til að fá festu í lífið. Svo koma skólarnir og atvinnan í framhaldinu.

Virðulegur forseti. Það er líka mjög mikilvægt að frá þinginu og ríkisstjórninni komi skýr skilaboð um það að lán og skuldbindingar og afborganir sem íbúar í Grindavík eiga yfir höfði sér og hafa tekið verði fryst og fólk þurfi engar áhyggjur að hafa af því á meðan þessi staða er uppi, á meðan fólk er að koma sér fyrir. Það er gríðarlega mikilvægt að þau skilaboð komi sem fyrst til fólksins að fyrirtækjunum og heimilunum verði hjálpað til að bjarga verðmætum. Það er líka mjög mikilvægt. Það eru gríðarleg verðmæti í húfi. Og að tryggja greiðslugetu fyrirtækjanna og heimilanna í náinni og lengri framtíð. Það er gríðarlega mikilvægt að um þetta sé samstaða í þinginu og að skilaboðin frá þinginu til Grindvíkinga sé algerlega skýr hvað þetta varðar. Ég óska Grindvíkingum blessunar og velfarnaðar á þessari stundu.