154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[23:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að senda öllum Grindvíkingum góðar óskir á erfiðum tímum. Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með þessum náttúruhamförum sem dunið hafa yfir en jafnframt aðdáunarvert að sjá hvernig samfélagið hefur staðið saman í Grindavík og hvernig tekist hefur að bregðast við með því að fólk hefur þurft að yfirgefa heimili sín, sem hefur að sjálfsögðu verið afar erfitt og er óvissa um framtíðina.

Ég vil þakka samstarfið í allsherjar- og menntamálanefnd við vinnslu þessa frumvarps og öllum þeim sem komu að því. Ég vil nota tækifærið og þakka formanni nefndarinnar sérstaklega og auk þess þeim fjölmörgum gestum sem við fengum fyrir nefndina í dag, margt mikilvægt sem þar kom fram og skipti okkur máli í þessari vinnu. Ég tel að hér liggi fyrir gott frumvarp sem sýnir það hversu megnugt Alþingi er að bregðast hratt og vel við ástandi sem við öll horfum til núna og við munum vonandi sjá líða hratt hjá.

Ég vil koma aðeins inn á 4. gr. sem er forvarnagjaldið sem hér hefur verið gagnrýnt af stjórnarandstöðunni. Ég vil byrja á því að segja það, herra forseti, að þetta er ekki hátt gjald. Þetta eru um 8.000 kr. á ári fyrir fasteign sem er metin á 100 millj. kr. En það er ekki síst samstaða sem felst í þessu gjaldi, samstaða allrar þjóðarinnar með Grindvíkingum, og finnst mér skipta verulegu máli í þessu að við sendum þau skilaboð út að við ætlum öll að taka þátt í því að mæta erfiðleikum Grindvíkinga og verja svæðið og byggðina fyrir hugsanlegum náttúruhamförum, sem ég segi enn og aftur að við vonum að verði ekki. Þetta eru rúmar 600 kr. á mánuði, þetta gjald, og 8.000 kr. á ári en það skilar mikilvægum tekjum í ríkissjóð þegar við erum að glíma við verðbólgu og reyna að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Það er svolítið sérkennilegt að heyra í þeim hér sem vilja að þessir peningar komi bara beint úr ríkissjóði án þess að nokkur skattlagning liggi fyrir því að þeir hinir sömu hafa alltaf talað um að það eigi að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. En þetta er nú veruleikinn í stjórnmálunum.

Varðandi gjaldið og þann kostnað sem við stöndum frammi fyrir við að gera þessa varnargarða þá finnst mér persónulega ekkert óeðlilegt við það að t.d. tvö stöndug og mikilvæg fyrirtæki sem eru á þessu svæði, HS orka og Bláa lónið, kæmu jafnvel inn í þann kostnað með einhverjum hætti, tækju þátt í þessum kostnaði. Ég tel ekkert óeðlilegt við það og væri held ég alveg eðlilegt að taka upp viðræður við þessi fyrirtæki. En það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt líka að fyrirtækin sendi þau skilaboð út að þau ætli að styðja við starfsmenn sína og greiða þeim laun meðan þeir geta ekki sinnt starfi sínu og geta ekki farið til síns heima. Það eru nokkur útgerðarfyrirtæki í Grindavík sem hafa gert það. Ég hef ekki heyrt þau skilaboð frá Bláa lóninu enn þá en ég er sannfærður um að það komi, Bláa lónið er stór og mikill og mikilvægur vinnustaður. Ég segi þetta hér vegna þess að ég tel eðlilegt að það verði rætt við þessi fyrirtæki. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir allt samfélagið af því að þetta eru einkafyrirtæki sem hafa greitt arð og gengur vel, sem er gott, við eigum að vera ánægð þegar fyrirtækjum gengur vel og ég held að þau hafi alveg svigrúm til að koma aðeins að þessari vinnu.

Herra forseti. Ég vil bara segja það hér að lokum að guð gefi að við þurfum ekki að horfa upp á frekari náttúruhamfarir eða tjón í Grindavík og Svartsengi.