154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

mótvægisaðgerðir fyrir Grindvíkinga.

[13:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er unnið að frumvarpi. Það er í raun og veru búið að nýta tímann til að fara yfir þau úrræði sem við þekkjum frá fyrri tímum og hvað sé best að nýta sem fyrirmynd að einhvers konar úrræði fyrir þau sem ekki geta mætt til vinnu í Grindavík núna. Ég á von á því að einhver slík drög fæðist bara á allra næstu dögum. Það er ánægjulegt að heyra frá formanni Samfylkingarinnar og ég vænti þess að aðrir flokkar hér á Alþingi séu sammála um að það skiptir máli að þegar síðan frumvarpið kemur til kasta Alþingis sameinumst við um að greiða því leið í gegnum þingið þó að við gefum okkur auðvitað tíma til að fara yfir það. Það skiptir gríðarlegu máli að við getum talað skýrt og afgreitt með skýrum hætti þau skilaboð til Grindvíkinga að þeirra afkoma verði tryggð næstu mánuði og að sú afgreiðsla liggi fyrir í tæka tíð fyrir næstu mánaðamót. Að því er stefnt og ég tel að við höfum næg verkfæri í verkfærakistunni til að finna góða leið í þessu máli.