154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

sjóður fyrir fólk í neyð.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Af því að hv. þingmaður setti þetta í samhengi við varnargarða við orkuver hér í fyrri spurningu þá fannst mér rétt að draga fram í því samhengi að sú aðgerð er líka fyrir fólk. Hins vegar er það auðvitað svo að við erum áfram með fólk sem á erfitt með að ná endum saman um land allt. Það verkefni hefur ekkert farið. En ég vil bara benda hv. þingmanni á allt það sem hefur verið gert, hvort sem það hefur verið í gegnum aukinn húsnæðisstuðning, t.d. til leigjenda, af því að hv. þingmaður nefnir þá sérstaklega hér, og allar þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Af því að hv. þingmaður ræðir kostnað við að sækja sér heilbrigðisþjónustu, hvað var ákveðið í upphafi upphafsárs þessarar ríkisstjórnar? Það var að draga þann kostnað niður og það hefur verið gert með markvissum skrefum á hverju ári, að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu þannig að við værum á pari við Norðurlöndin og því markmiði erum við að ná. Þannig að þegar hv. þingmaður segir: Hér er enn fólk sem á í vanda. — Vissulega, en við erum stöðugt að taka skref til að draga úr þeim vanda.