154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

þróun varnargarða við Grindavík.

[13:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við þetta tækifæri vil ég byrja á að segja að þingflokkur Miðflokksins mun styðja við allar skynsamlegar aðgerðir sem ríkisstjórnin gengur í til að styðja við íbúa í Grindavík og þau fyrirtæki sem þar starfa, en bendir sömuleiðis á og hvetur til að hlutir verði gerðir með mögulega snarpari eða skynsamlegri hætti en lagt er upp með, eins og við gerðum hér með tillögu um breytingu á fjármögnun þess varnargarðs sem settur var í farveg í gær.

Í tengslum við varnargarðinn langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem nú hefur verið í því embætti á sjöunda ár, hvernig tímalínan var varðandi þennan varnarvegg sem nú er kominn í farveg. Það kom fram við umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar í gær að gengið hefði verið til frumhönnunar þessa garðs strax árið 2021. Nú er komið á þriðja ár síðan. Var verið að skoða að ganga til þessa verks á þeim tíma? Einhverra hluta vegna var frumhönnunin unnin. Í ljósi þess með hvaða hætti verklegar framkvæmdir vinnast gæti verið skynsamlegt að hafa rýmri tíma en skemmri til slíkra aðgerða, með vísan í orð fyrrverandi þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Ara Trausta Guðmundssonar, sem er ágætlega að sér í þessum efnum. Hann segir í grein í Víkurfréttum árið 2013, með leyfi forseta:

„Hins vegar er líka goshætta við Grindavík og þar geta hraun runnið yfir byggð. Á sama hátt geta hraun ógnað orkuverinu í Svartsengi og eldsumbrot geta einnig ógnað Reykjanesvirkjun.“

Þessi hætta hefur því legið fyrir lengi og mig langar að heyra frá hæstv. forsætisráðherra með hvaða hætti þessi varnargarður hefur verið meðhöndlaður í stjórnkerfinu síðan frumhönnun lá fyrir árið 2021.