154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

viðbrögð við náttúruvá á Reykjanesi.

[14:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. „Hugsanlega“ er mjög mikilvægt orð í spurningu hv. þingmanns af því að satt best að segja höfum við annars vegar það sögulega sem við getum reynt að styðjast við og svo vitum við líka að náttúran er óútreiknanleg. Ég vil segja um það sem gengur á núna að miðað við þá getu sem við Íslendingar höfum byggt upp, skuldsetningu þjóðarbúsins, ríkissjóðs og annað, þá er nánast allt það sem við erum að horfa á núna innan þeirra marka að við getum leikandi ráðið við þetta sem samfélag og eigum ekki að vera í nokkrum vafa um að segja fólki það.

Auðvitað getur ýmislegt gerst á Íslandi sem gerir það að verkum að lífið verður eitthvað þyngra og erfiðara og þá er ég að tala um miklu stærri skala en hér er verið að ræða. En ég held líka að íslensk þjóð muni þá þétta raðirnar og taka höndum saman um það. Það er hins vegar rétt að við höfum auðvitað líka verið að undirbúa sitthvað fleira. Við höfum t.d. verið að byggja upp varaflugvelli á Egilsstöðum og Akureyri (Forseti hringir.) í því skyni að þeir geti þjónað einhvers konar alþjóðaflugi ef við erum að horfa á slíka hluti. Það hefur reyndar aðallega verið af manna völdum; það þarf tvo flugvelli hérna á suðvesturhorninu og af manna völdum hefur annar þeirra verið að hverfa.