154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:18]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fyrir þetta verkefni sem hann er að taka að sér. Það er þarft að uppfæra reglurnar um jöfnunarsjóðinn og ég held að það sé mjög til bóta og fari vel á því að hafa sérstök lög um hann. Mér sýnist margt gott í þessu og markmiðin góð, að ná betur utan um hver raunveruleg þörf hvers sveitarfélags fyrir sig er og koma betur til móts við það. En mig langaði að spyrja hann sérstaklega út í framlög til reksturs grunnskóla og sér í lagi hlut Reykjavíkurborgar þar. Þarna er verið að koma til móts við Reykjavíkurborg varðandi nemendur sem eru með íslensku sem annað mál og er það mjög jákvætt. Borgin hefur lengi kallað eftir þessu og bent á aukinn kostnað vegna þessa. En engu að síður er verið að halda sig við það að útiloka borgina fyrir fram frá annars konar framlögum. Ég átta mig á því að það eru ákveðnar sögulegar forsendur að baki þessari aðgreiningu en þar sem það er verið að hverfa frá þessu varðandi þennan nemendahóp, nemendur með íslensku sem annað mál, þá velti ég fyrir mér hvort það væri ekki einfaldara fyrirkomulag að öll sveitarfélög væru þarna undir hvað varðar öll framlög, hvers konar grunnskólaframlög, framlög vegna reksturs grunnskóla. Það væri bara horft til þess hver kostnaður við hvern kostnaðarþátt er innan grunnskólanna í hverju sveitarfélagi fyrir sig almennt.