154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:22]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þetta snýst sem sé um stöðuna sem er uppi og málaferlin og að það vanti samkomulag. Ég skil þá betur sjónarmiðin að baki. Það má kannski skilja það þannig að þetta sé ákveðin redding varðandi þennan tiltekna þátt af því að það blasir svo vel við hver þörfin er. Mögulega myndi opnast betur á það síðar að fara yfir grunnskólareksturinn og framlög til hans, þá með einhvers konar tvíhliða samkomulagi frekar en lagasetningu, ég skil það þannig. Ég tek þetta nefnilega líka upp af því að mér fannst þessi þáttur ekkert vera ávarpaður sérstaklega í greinargerðinni og ekkert vísað til þess að það hafi verið skoðað sérstaklega að aðrir þættir væru þannig staddir að það væri ekki ástæða til að koma til móts við þá með sama hætti og framlögin vegna nemenda sem eru með íslensku sem annað mál. Ég vil bara fagna því að mögulega gæti þetta horft til betri vegar til framtíðar ef sveitarfélögin og ríkið gætu komið sér saman um hvernig þessu yrði háttað til framtíðar óháð þessu frumvarpi.