154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[16:54]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mig langar að velta því aðeins betur fyrir mér hvernig við tryggjum áhersluna á að fjölga störfum á landsbyggðinni og ég held að við þurfum að huga að því að greina það hvaða störf eru bundin tilteknum starfsstöðvum og svo hins vegar hvaða störf geta í rauninni kannski farið fram hvar sem er í starfsstöðvarkjörnum dreifðum um landið. Það kemur reyndar ekki fram í greinargerðinni með frumvarpinu en í minnisblaði sem fylgdi frumvarpinu til þingflokksins kom fram að gert er ráð fyrir að stofnunin starfi áfram á núverandi starfsstöðvum í Garðabæ, á Akranesi, Akureyri, Mývatni og Breiðdalsvík. Samkvæmt 10. gr. er lagt til að ráðherra setji í reglugerð, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun, nánari ákvæði um skipulag stofnunarinnar, þar með talið staðsetningu starfsstöðva hennar, með það að markmiði að fjölga störfum á landsbyggðinni. Ég heyri að ráðherra leggur þessa áherslu en ég tel líka mjög mikilvægt að umhverfis- og samgöngunefnd skoði hvort megi binda þetta með einhverjum hætti frekar í lögin eða hvort það væri æskilegt að koma með ábendingar til ráðherra varðandi reglugerðina, hvað sé mikilvægt að komi fram í reglugerðinni. Ég vænti þess að það komi ýmislegt til nefndarinnar sem þar skiptir máli, t.d. um lágmarksfjölda á starfsstöðvum eða lágmarksdreifingu um landið. Við erum aðeins að reka okkur á að við erum ekki alveg búin að finna út hvernig við vinnum að þessum markmiðum í öllum tilfellum þannig að ég held að þetta sé tækifæri til að móta verkferla. Ég velti t.d. fyrir mér og vil beina til ráðherra: Gæti forstjóri þessarar stofnunar sett sig niður á hvaða starfsstöð sem er? Og svo langar mig að víkja að umsögn Þingeyjarsveitar sem ég held að skipti miklu máli að verði horft til í allri vinnu en Þingeyjarsveit setur sig ekki upp á móti frumvarpinu.