154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[16:27]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að hrósa Grindvíkingum og öllu því fólki sem fjarri heimilum sínum hefur lagt nótt og dag við að tryggja sem best og öruggast utanumhald um börn og ungmenni Grindavíkur. Ég vil líka byrja á því að segja að þessi munnlega skýrsla sem hér verður flutt er unnin í fullu samráði við fulltrúa stjórnsýslu Grindavíkur, enda lykilatriði að öll okkar viðbrögð og framtíðarsýn sem unnið verður eftir sé á þeirra forsendum. Í Grindavík búa tæplega 1.000 börn á aldrinum 0–18 ára en um er að ræða sveitarfélag með mikinn fjölda fjölskyldna með ung börn. Viðbrögð við atburðum síðustu daga hafa verið leidd af Grindavík en með aðkomu fjölmargra aðila, m.a. sveitarfélaga hér á suðvesturhorninu.

Mikill vilji er til þess alls staðar á landinu að styðja sveitarfélagið í þessari stóru áskorun. Virkjað hefur verið teymi innan mennta- og barnamálaráðuneytisins, þvert á málefnasvið, til að taka þátt í viðbrögðum stjórnvalda og styðja við bæjaryfirvöld í Grindavík. Þá hefur landsteymi Menntamálastofnunar verið virkjað og mun það bjóða fram ýmis úrræði og stuðning til handa nemendum frá Grindavík, þvert á skólastig. Sent hefur verið erindi á alla framhaldsskóla þar sem hvatt er til að skólameistarar leiti leiða til að koma til móts við nemendur frá Grindavík með auknum sveigjanleika og stuðningi eftir þörfum. Þegar er búið að kortleggja yfirlit yfir laust húsnæði og starfsmannaþörf vegna leik- og grunnskóla undir forystu Reykjavíkurborgar og almannavarna höfuðborgarsvæðisins sem og framboð á húsnæði til frístundastarfs. Samband íslenskra sveitarfélaga og nágrannasveitarfélög hafa einnig verið virkir þátttakendur í stuðningi og samstarfi við stjórnendur Grindavíkur. Þá var þjónustumiðstöð opnuð í Tollhúsinu í dag þar sem boðið er upp á sálfélagslegan stuðning og félagslega ráðgjöf, einnig upplýsingagjöf og ráðgjöf af ýmsu tagi, og að sjálfsögðu veiti ég og sérfræðingar ráðuneytisins stuðning eftir þörfum.

Virðulegi forseti. Á meðan óvissa ríkir vegna yfirstandandi atburða á Reykjanesi er lykilatriði að börnum og fjölskyldum sé gefið andrými til að ná áttum, þau verði gripin og þeim veittur stuðningur vegna þess áfalls sem þau hafa orðið fyrir. Þegar kemur að því að tryggja næstu skref barna frá Grindavík hvað varðar bæði skólagöngu og íþrótta- og tómstundastarf vinna bæjaryfirvöld í Grindavík með stuðningi mennta- og barnamálaráðuneytis, sveitarfélaga, ýmissa aðila, stofnana og samtaka að því að tryggja að hverju barni verði mætt á eigin forsendum. Stór hluti barna og fjölskyldna frá Grindavík dvelur nú í tímabundnu húsnæði og gera má ráð fyrir að þau þurfi að flytja milli hverfa og jafnvel milli sveitarfélaga á næstunni. Á meðan ekki er vitað um þróun mála á Reykjanesskaga og unnið er að því að tryggja húsnæðislausnir til lengri tíma skoða bæjaryfirvöld í Grindavík skólalausnir í samvinnu við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem taka tillit til stöðunnar og ganga m.a. út á að börn úr Grindavík sæki áfram skóla saman sem hópur eða í nokkrum hópum, m.a. miðað við aldur, og þá jafnvel mögulega með einhverjum af sínum kennurum úr skólum Grindavíkur. Slík lausn gæti minnkað andlegt álag á börnin og stutt við samfélag Grindvíkinga en sú upplifun að byrja í skóla á nýjum stað, fjarri vinum og kunningjum getur verið krefjandi upplifun fyrir barn, ekki síst þegar það hefur nýlega orðið fyrir áfalli. Það kenndi reynslan okkur þegar gaus í Vestmannaeyjum. Aðrar lausnir, t.d. að fara inn í þann hverfisskóla þar sem fjölskyldan er búsett, munu þó einnig standa til boða og er nauðsynleg t.d. þar sem fjölskyldur hafa flutt eða hyggjast flytja til sveitarfélaga þar sem hópalausn verður ekki í boði eða þau hyggjast búa á nýjum stað til lengri tíma. Einnig þarf að tryggja stuðning við börn sem fara þá leið.

Meginregla grunnskólalaga gerir ráð fyrir að börn á skólaskyldualdri sæki skóla. Frá því geta verið frávik og undanþágur ef lögmætar og málefnalegar ástæður eru fyrir hendi. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í Grindavík telur ráðuneytið að gild rök séu fyrir því að grindvískum börnum á skólaskyldualdri sé tímabundið veitt svigrúm frá skólaskyldu eftir þörfum. Þegar niðurstöður og kortlagning á staðsetningu barna og fjölskyldna þeirra úr Grindavík liggur fyrir og þannig hefur fengist skýrari mynd af búsetu þeirra til lengri tíma og einnig þegar fyrir liggur hvernig hægt er að skipuleggja skólahald telur ráðuneytið eðlilegt að hugað sé að skólasókn að nýju. Þá verði samhliða hugað sérstaklega að þáttum sem styrkja farsæld þeirra og vellíðan. Þó svo að leitast sé við að tryggja börnum skólavist og ekki síst rútínu, leik og samveru við jafnaldra sína sem allra fyrst, þarf ákvörðun um hvenær og hvernig börn frá Grindavík hefja nám að nýju að vera tekin af fræðsluyfirvöldum í Grindavík í samræmi við það sem börnum er fyrir bestu og í samræmi við þau og foreldra þeirra. Ég mun leggja allt sem ég get af mörkum til að tryggja að það verkefni gangi sem best.

Virðulegi forseti. Grindvíkingar takast á við miklar áskoranir og óvissu. Hvernig verður framtíðin? Hvernig verður framtíð sveitarfélagsins, fyrirtækja, einstaklinga og hverrar fjölskyldu fyrir sig? Það er ótrúlega mikilvægt að við sem þjóð stöndum þétt við bakið á Grindvíkingum í þessu verkefni. Að svo stöddu er hugur margra í bráðaviðbrögðum en ljóst er að óvissan um þróun viðburða á Reykjanesskaga eykur á áhyggjur um hvað framtíðin ber í skauti sér. Óvissan og bráðabirgðaviðbrögð geta ekki dregist lengi. Óvissan sjálf er lamandi. Grindvíkingar þurfa svör og lausnir við mikilvægum spurningum, sem fjöldi ráðuneyta og stofnana vinnur að sem stendur í samvinnu við bæjaryfirvöld og skoða þarf ólíkar sviðsmyndir til framtíðar.

Virðulegi forseti. Það hefur verið magnað að fylgjast með bæjaryfirvöldum Grindavíkur og því fólki sem þar starfar og býr takast á við atburði síðustu daga af yfirvegun og fagmennsku. Það hefur líka verið magnað að sjá samhug þjóðarinnar og stuðning við Grindvíkinga og ég veit að við öll sem erum hér á Alþingi erum tilbúin til að standa við bakið á Grindvíkingum í þessum ólgusjó. Ég vil hérna fyrir hönd ráðuneytis mennta- og barnamála óska eftir góðu samstarfi við Alþingi um framgang mála er varða framangreint og ítreka mikilvægi þess að öll skref sem stigin eru séu í fullu samráði við íbúa og bæjaryfirvöld í Grindavík.