154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[17:00]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er gríðarlega mikilvægt að fræðsluyfirvöld í Grindavík meti stöðuna hverju sinni. Ríkisvaldið á ekki að taka einhliða ákvarðanir í svona stöðu. Við eigum að vinna það með fólkinu sem er á staðnum, alveg eins og þær áætlanir sem ég talaði um hér áðan eru komnar frá Grindavík, eru komnar frá fólkinu sem þekkir til, fólkinu sem vinnur með börnum á hverjum degi, fólkinu sem þekkir sitt heimafólk og sitt samfélag. Þannig að ég er þess fullviss að eftir því sem aðstæður breytast þá muni þetta fólk undirbúa aðgerðir til að bregðast við því. En við þurfum að aðstoða þau við það með öllum mögulegum ráðum; með fjármagni, með mannafla, með andlegum stuðningi og fleiri þáttum til þess að ná utan um verkefnið. Svarið við þessari spurningu er því: Það er ekki ráðherrans að segja nákvæmlega hvernig hlutirnir verða á jafn miklum óvissutímum heldur að styðja við fólkið sem er með ábyrgðina, er með tengingarnar og er með þekkinguna til þess.