154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[17:19]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Hugur þjóðarinnar er svo sannarlega með Grindvíkingum á þessum tímum. Það er erfitt að ímynda sér hvaða áhrif það hefur að missa heimili sitt vegna náttúruvár og vita ekki hvort þú fáir aftur snúið. Við viljum samt öll leggja okkar af mörkum en finnum okkur flest gríðarlega vanmáttug og hafa lítið fram að færa því það er nær ómögulegt að setja sig í þeirra spor. En hér erum við að ræða um börn og hvað hægt sé að gera fyrir þau á tímum sem þessum. Það er erfitt að ímynda sér hvaða áhrif það hefur á börn að búa fyrst við endurteknar jarðskjálftahrinur ár eftir ár og horfa svo á stærsta ótta sinn í þeim aðstæðum raungerast. Við Íslendingar stóðum saman og lærðum margt af gosinu í Vestmannaeyjum 1973 sem við getum nýtt okkur nú í þrengingum Grindvíkinga og við vitum hversu mikilvægt það er að hlúa að börnum á tímum sem þessum. Það þarf að vanda til verka þegar við skipuleggjum aðgerðir eins og hvað varðar skólagöngu þeirra. Það er t.d. mikilvægt að reyna eftir bestu getu að tryggja að skólabekkir og árgangar geti haldið hópinn.

Í því sambandi langar mig að ræða framlínuhópinn sem er að fara að vinna með öllum þessum börnum, kennarana sjálfa. Enn og aftur kemur í ljós hversu mikilvægir kennarar eru sem framlínustarfsmenn og það má treysta því að kennarastéttin muni sameinast um að taka vel á móti grindvískum börnum og létta þeim lífið eftir bestu getu. Á þessari stundu er ekki ljóst hvað verður en þó að það væri æskilegt og best er ekki víst að það sé raunhæft að ætla að börn í Grindavík geti stundað sína skólagöngu á sama svæði þegar öll kurl eru komin til grafar. Búseta þeirra er núna dreifð og því ólíklegt að hægt verði að sameina þau öll í einum og sama skólanum þannig að einhver þeirra munu væntanlega dreifast á hverfisskóla, en það má ekki flana því. Áður en börn eru sett í hverfisskóla þarf í raun að vera ljóst að þau séu komin í öruggt húsnæði til næstu mánaða því það getur ekki verið gott fyrir börn að senda þau í einn skóla og taka þau úr honum eftir tvær vikur og senda annað. Þannig þarf að huga að því hvernig staðið er að skólagöngunni, bæði hvað varðar börnin sjálf sem og skólana og kennarana sem eru að taka við þeim, hvort sem er á leikskóla eða grunnskóla. Svo má velta fyrir sér stöðu kennara frá Grindavík sem eru í raun í sömu stöðu og börnin sjálf og aðrir Grindvíkingar. Það er að sjálfsögðu tækifæri til að veita þeim vinnu í þeim skólum sem taka við grindvískum börnum en svo er náttúrlega möguleiki á því að hægt sé að koma því í kring að grunnskóli Grindavíkur verði á einum stað og að þar geti stærsti hópur nemenda stundað sitt nám. En til þess að svo geti orðið þarf að huga sérstaklega að kennurum Grindavíkur því að þau sem sjá um börnin þurfa að vera í góðu andlegu jafnvægi. Ég fagna því sem fram kom í andsvörum ráðherra áðan um að verið sé, í samvinnu við Grindavíkurbæ, að taka sérstaklega utan um þau. Þau hafa eins og aðrir Grindvíkingar orðið fyrir gríðarlegu áfalli sem þau þurfa að vinna úr, eigi þau geta hjálpað börnum. Það skiptir því miklu máli að huga vel að skólafólkinu í Grindavík og hafa það með í ráðum í þessu stóra verkefni. Að þessu sögðu á það sama við um alla íbúa Grindavíkur og þá kannski sérstaklega foreldrana af fyrrgreindum ástæðum.

Já, það er að mörgu að huga þegar kemur að hagsmunum barna og við þurfum líka að muna að börn eru ekki eyland í tilverunni. Líðan þeirra ræðst að miklu leyti af líðan foreldra. Ef foreldrar hafa áhyggjur af húsnæði og hlutum eins og afborgunum af lánum og leigu smitast þær áhyggjur yfir á börnin. Alveg sama hvernig foreldrarnir reyna að hlífa börnunum við áhyggjum sínum eru börn ótrúlega næm og þegar þau eru í einhvers konar viðbragðsstöðu, eins og þau hljóta að vera núna, eykst næmi þeirra sem því nemur.

Þess vegna vil ég koma inn á þátt bankanna þótt þessi umræða snúist um börn. Við heyrðum fregnir af patentlausnum bankanna í gær og ég gagnrýndi þær harðlega í ræðu minni hér í þessum sal. Ég ætla því ekki að endurtaka þá gagnrýni hér en beini því til ráðherra að hann og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankarnir geri ekki illt verra með tilboðum sem engu skila nema því að fjárhagsstaða Grindvíkinga verði enn verri en ella. Það skiptir börnin í Grindavík miklu máli því það hefur áhrif á bæði líðan og framtíð fjölskyldunnar.

Að þessu sögðu verð ég að segja að framganga þeirra Grindvíkinga, bæjarstjóra, björgunaraðila og almennra bæjarbúa sem komið hafa fram í fjölmiðlum hefur verið með miklum sóma. Ró þeirra allra og æðruleysi í ólýsanlega erfiðum aðstæðum er aðdáunarverð og okkur öllum til eftirbreytni.