154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:01]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra aðeins út í tekjuhliðina á þessu frumvarpi og þá sérstaklega gistináttaskattinn vegna þess að það hafa orðið breytingar á upphaflegum áformum hvað það varðar. Þessi breyting, nýja formið á gistináttaskattinum, átti að skila 3,1 milljarði kr. upphaflega þannig að samtals átti sem sagt niðurfelling á gistináttaskattinum, sem er 1,5 milljarðar, plús þessi 3 milljarðar að skila 4,2 milljörðum. Núna vantar 1 milljarð upp á og mig langar að spyrjast fyrir um hvaða breytingar hafa orðið á forsendum sem gerði það að verkum að þessi tekjuaðferð er að skila 1 milljarði minna en áður var búist við. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að það er talað um að fara í ákveðnar aðhaldsaðgerðir þessa dagana. Það eru ekki margir tekjustofnar sem er verið að snerta og 1 milljarður í því samhengi skiptir bara verulega miklu máli.