154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja varðandi gistináttaskattinn þar sem segir í 2. gr. laga um breytingu á lögum um gistináttaskatt að gistináttaskatturinn af hverri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest skuli vera sem hér segir — og það eru 300 kr. Í fyrsta lagi varðandi fjárhæðina, vissulega er þetta bara á einn einstakling, en er hugsunin að þetta sé bara fyrsta skrefið? Ef ég gisti erlendis þá er þessi skattur yfirleitt töluvert hærri, alla vega ef maður fer til stórborganna, eins og Parísar. Er eitthvert samræmi við nágrannalöndin hvað varðar fjárhæðina? Var horft til samkeppnislanda í ferðamannaiðnaðinum hvað varðar fjárhæðina? Við hvað miðast þessi fjárhæð? Annað sem mig langar að spyrja um er að þetta er fyrir hvern dvalargest og núna geta gestir líka verið á mismunandi aldri. Hvað með t.d. börn? (Forseti hringir.) Ef það kæmi sex manna barnafjölskylda með fjögur börn, eiga þá börnin líka að borga 300 kr. á einingu?