154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil fyrst taka fram að ég tel 300 kr. ekki háa fjárhæð hvað þetta varðar, þetta væri ekki einu sinni fyrir pylsu. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi það sem segir í greinargerðinni, að þetta nái einnig til tjaldstæða og stæða fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi. Og svo ef maður skoðar 2. gr. í lögunum um gistináttaskatt, greinin heitir gistináttaskattur, þá er talað um gistiaðstöðu, með leyfi forseta:

„Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi, þ.m.t. herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.“

Þegar ég skoða hugtakið gistiaðstöðu og svefnaðstöðu þá á ég erfitt með að sjá að það falli undir tjaldstæði og þegar fólk kemur með eigin gistiaðstöðu, svo sem eins og í bílum og fellihýsum og hjólhýsum. Kom ekki til greina að fella það út að vera rukka líka vegna tjaldstæða, líka bara út frá skilgreiningum hvað svefnaðstaða er? Mér finnst ekki passa alveg að vera að rukka fólk fyrir gistináttaskatt sem kemur með eigin svefnaðstöðu.