154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir frekari skoðun var það mat mitt að þetta kallaði a.m.k. á nánari skoðun, þ.e. hvort þetta væri gerlegt og hvernig þetta yrði útfært. Það þarf að líta til ríkisstyrkjareglna. Það er rétt að menningarstarfsemi er almennt utan virðisaukaskattskerfisins en kvikmyndahúsin hefðu ekki áhuga á að vera í því þrepi, þ.e. utan virðisaukaskattskerfis, vegna þess að það hefði neikvæð áhrif á rekstur þeirra. Ég veit ekki til þess að það sé þannig víða, ef nokkurs staðar, að kvikmyndahúsin séu í undanþáguþrepi.

Síðan koma inn í þetta önnur sjónarmið þessu tengd almennt varðandi þessa starfsemi, að það kallar einfaldlega á frekari skoðun og er ekki leið sem aðrir virðast vera að fara. (Forseti hringir.) Það var ekki þannig að hægt væri að gera eins og með menninguna vegna þess að það er ekki það sem kvikmyndahúsin eru sjálf að kalla eftir og myndi ekki henta rekstri þeirra.