154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Einmitt í ljósi þess sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi aðra þætti sem eru að einhverju leyti sambærilegir og menn myndu væntanlega sömuleiðis meta sína hagsmuni þannig að það myndi henta að vera í undanþáguþrepi, þá er rétt að horfa á það í einhverju heildarsamhengi. Við erum hins vegar almennt að reyna að fækka undanþáguþrepum í virðisaukaskattskerfinu frekar en að fjölga þeim. En vissulega er virðisaukaskattskerfið líka nýtt sem tæki til að ívilna og styðja við og annað slíkt og það hefur sannarlega skilað árangri sem slíkt að styðja við ákveðna starfsemi. En hins vegar er rétt að það sé þá skoðað nánar og í víðara samhengi með tilliti til tæknibreytinga og breytinga á viðskiptaumhverfi. Við þurfum þá líka að vera með það á hreinu að það yrði þannig gert að það myndi standast allar reglur. En að mínu viti er þetta ekki forgangsatriði í því sem hér er rætt.