154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að um stöðu Landhelgisgæslunnar er og hefur verið umræða sem mun halda áfram. Það er vinna í gangi sem verður að fá að eiga sér stað og huga að til framtíðar hvernig fjármagna eigi bæði rekstur og tækjakost og það sem þarf að fjármagna innan Landhelgisgæslunnar. Hins vegar er að hluta til komið til móts við ákveðna þætti í fjáraukalagafrumvarpinu hér en það er líka alveg skýrt að fjáraukalögum er ekki ætlað að mæta til að mynda rekstrarhalla sem er hluti af þeim vanda sem Landhelgisgæslan glímir við og á því miður sömuleiðis við um ýmsar aðrar stofnanir. Hins vegar er alveg ljóst, og um það tel ég nú ríkja bæði pólitíska samstöðu og algjöra samstöðu í samfélaginu, að grundvallarþættir eins og starfsemi Landhelgisgæslunnar þurfa að vera í lagi. Þar þarf þá að horfa til og rótargreina vandann, hver hann er og hvort og þá með hvaða hætti hægt er að gera hlutina öðruvísi til framtíðar.

Síðan erum við núna í þeirri stöðu og við okkur blasir verkefni sem hefur þegar haft áhrif á Landhelgisgæsluna og kann að hafa frekari áhrif á hana á næstu dögum, vikum og jafnvel mánuðum. Í því samhengi held ég að sé óhætt að segja að við munum líta til þeirra verkefna og þarfa bara eftir því hvernig málum vindur fram. En í raun má segja að það verkefni sé aðskilið þessum viðvarandi rekstrarhalla og auðvitað er það ekki gott þegar stofnanir flytja hann á milli ára. En fjáraukalagafrumvarp er ekki til þess að eyða rekstrarhalla á stofnunum og þar getur sömuleiðis verið flókið að finna út úr því þegar það á við um margar stofnanir og er stofnananna sjálfra að ná honum niður.