154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að uppfæra miðað við spár og annað hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út og það er auðvitað fjöldinn allur af beiðnum úr ýmsum áttum varðandi frekari fjármuni í ýmiss konar verkefni. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni í því að Landhelgisgæslan sé grundvallarstarfsemi í okkar samfélagi og reynir á það núna. Það er hins vegar eðli máls samkvæmt hvers ráðherra fyrir sig að skipta því fjármagni innan málefnasviða og málaflokka eins og best verður á kosið. Það þarf að greina það til hlítar hvað það er sem þarf að gera innan Landhelgisgæslunnar og það kann líka að þýða að það kalli mögulega á einhverjar breytingar sem við verðum þá að hafa kjark til að ræða vegna þess, eins og ég segi, að það er að sjálfsögðu algjör pólitísk samstaða um að sú grundvallarstarfsemi þurfi að vera í lagi. Þess vegna þarf að greina það hvernig við gerum það til framtíðar að geta tryggt að svo sé.