154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir akkúrat ekkert svar. Þetta eru tímabundin og ófyrirséð atvik sem við erum að takast á við í dag. Þessir einstaklingar eru að takast á við gríðarlegan vanda í samfélaginu eins og allir vita og þegar ríkisstjórnin sér ekki sóma sinn í að gera ráð fyrir því í fjárlögum er einmitt gert ráð fyrir að hægt sé að nýta þær heimildir sem til eru í fjárauka. Ég er búin að vera á Alþingi í tæp sjö ár og þessi fjáraukalöggjöf hefur verið notuð í ýmsar áttir, með fullri virðingu, hæstv. ráðherra, svo ekki sé meira sagt, meira að segja jafnvel í kirkjujarðasamkomulag og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er í raun spurningin og ég óska eftir að fá svar: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að taka utan um þetta fólk sem er í algerri neyð og líður skort hér og nú, hvað þá að það geti veitt sér nokkurn skapaðan hlut í jólamánuðinum?