154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:14]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég skildi hæstv. fjármálaráðherra rétt þá er almenni varasjóðurinn ákveðinn forvarnasjóður. Þetta er einfaldlega ekki rétt. (Fjmrh.: Nei, þú varst að spyrja um …) Ég var að tala um almenna varasjóðinn. Ég var að tala um það hvort það ætti ekki að beita almenna varasjóðnum vegna hræringa og mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi fyrir lok þessa árs, eins og stendur á bls. 47 í frumvarpi til fjáraukalaga. Um það snerist spurningin, svo einfalt var það. Varðandi aldraða þá er augljóst mál að það er algerlega heimild í fjáraukalögum til að koma til móts við þann hóp, það er alveg augljóst mál, líkt og aðra hópa og önnur útgjöld sem þar eru aukin eins og t.d. hvað varðar öryrkjana. Og þetta endalausa tal alltaf um einhverjar kerfisbreytingar sem er verið að bíða eftir og það sé verið að bíða eftir nánari skoðun á þessu eins og var svarað með Landhelgisgæsluna hérna áðan — það er alltaf verið að skoða einhverjar kerfisbreytingar. Spurningin er þessi: Er er ekki alveg klárt mál að þessir 3,8 milljarðar (Forseti hringir.) munu fara í útgjöld vegna jarðhræringa og mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi og líka fyrir aldraða sem eingreiðsla fyrir jólin vegna stöðu þeirra í samfélaginu?