154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:17]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Hæstv. ráðherra fór í ávarpi sínu vegna fjáraukalaga yfir bættan frumjöfnuð ríkissjóðs. Þar er á ferðinni mælikvarði sem fyrirrennari hennar hafði mikið dálæti á en ég verð að viðurkenna að ég deili ekki dálæti þeirra á honum. Frumjöfnuður er í eðlinu ekkert annað en tekjur að frádregnum öðrum gjöldum en vaxtagjöldum og afborgunum lána og hjá þeim útgjöldum verður auðvitað ekki komist. Það að líta þannig á að það sé hægt að skilja þau einhvern veginn frá restinni er skringileg framsetning efnis. Ég vil útskýra fyrir ykkur hversu skringileg hún er með einföldu dæmi. Nú hafa tekjur heimilanna á Íslandi nokkurn veginn staðið í stað en vegna vaxtahækkana hafa afborganir lána þeirra hækka mjög mikið. Heimilin hafa orðið að skera niður, herða sultarólina, standa einhvern veginn straum af þessum aukna vaxtakostnaði. Hvað þýðir það? Jú, frumjöfnuður þeirra hefur batnað mjög mikið á þessu ári. Telur ráðherra að þetta sé jákvæð þróun fyrir heimilin?