154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það að tala um frumjöfnuð og hvernig hann þróast er auðvitað ekkert eina birtingarmyndin af því hvernig ríkissjóður stendur. Það segir hins vegar sína sögu með hvaða hætti hann hefur þróast. Það er alveg hægt að benda á bara heilt yfir og almennt að við erum einfaldlega að ná að rétta úr kútnum töluvert hraðar og miklu hraðar en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og þar af leiðandi að við gerðum ráð fyrir að við myndum sjá. Hins vegar er það alveg rétt að til að mynda er vaxtakostnaður ríkisins hár og er að hækka og það eru ekki jákvæð tíðindi, enda fór ég í minni framsögu yfir bæði það og skuldastöðu en sömuleiðis frumjöfnuð, sem er ágætt að halda til haga, en með honum einum og sér er ekki með tæmandi hætti hægt að leggja mat á stöðu ríkissjóðs. Við erum hins vegar í ágætri stöðu. Við erum að rétta úr kútnum hraðar en við gerðum ráð fyrir. Það er jákvætt. Það eru áfram áskoranir og hlutir sem við þurfum að gera öðruvísi og horfa til. En það skiptir líka máli að taka ábyrg skref í ríkisfjármálum og því sem við erum að gera hér, bæði með þessu frumvarpi og þinglegri meðferð á fjárlagafrumvarpinu o.s.frv. Ég er ekki ósammála hv. þingmanni í því að það er til ýmissa annarra þátta að líta heldur en frumjafnaðar en það er sjálfsagt að nefna hann líka og með hversu jákvæðum hætti hann hefur þróast, sem segir sína sögu en segir ekki alla söguna.