154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:20]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég tek undir með henni að það er fyrst og fremst heildarniðurstaðan sem skiptir máli og ég tek líka undir það sem hún sagði um mikilvægi þess að ná jafnvægi í rekstri hins opinbera. Í þessu frumvarpi kemur fram að vaxtakostnaður íslenska ríkisins á þessu ári losar 124 milljarða kr. Þessir 124 milljarðar kr. verða ekki notaðir í önnur verkefni, verða ekki notaðir til að bæta stöðu bágstaddra, verða ekki notaðir til að styrkja heilbrigðiskerfið, verða ekki notaðir í nein önnur verkefni. Það er eiginlega grátlegt að íslenska ríkið er í þeirri stöðu að vera til þess að gera hóflega skuldsett en með langsamlega hæstu vaxtabyrði nokkurs ríki sem við berum okkur saman við. Þingmenn Viðreisnar hafa ítrekað frá árinu 2019 bent á hve hættulegt það er, sérstaklega á Íslandi þar sem sagan sýnir okkur að vextir eru að jafnaði mjög háir, að ríkið safni skuldum (Forseti hringir.) vegna þess að þá koma ár eins og þessi þar sem ekki er til fyrir nauðsynlegum útgjöldum.