154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað hárrétt og ágætt að minna sig á að þeir fjármunir sem fara í að greiða vaxtakostnað eru krónur sem ekki eru nýttar í önnur verkefni. Það er vont að sjá hann aukast svona mikið. Ég er síðan algerlega sammála hv. þingmanni að það er nefnilega til mikils að vinna og hið rétta að gera en ekki alltaf mikill pólitískur stuðningur við það eða mikil eftirspurn eftir því að standast allan freistnivanda og gera það sem gera þarf til að búa sig undir áföll á erfiðari tíma. Sem betur fer vorum við í góðri stöðu þegar heimsfaraldur skall á. Ég vil bara segja almennt og leggja mikla áherslu á það að við hugsum þannig að við þurfum að vera tilbúin þegar erfiðari tímar koma. Það sem við sjáum núna vera að gerast, ekki bara hér heldur í kringum okkur, er að við virðumst vera að fara inn í tíma þar sem er nánast áfall eftir áfall og ég held að (Forseti hringir.) við þurfum aðeins að ná okkur betur niður á jörðina með það, hvers konar tíma við erum að stíga inn í og hvað er ábyrgt að gera, jafnvel þótt það sé ekki alltaf vinsælast. (Forseti hringir.) Á endanum er það sem skiptir máli það að við séum í stakk búin til að takast á við aðstæður sem þessar.