154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:36]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Ég vil áfram gera að umtalsefni þá stöðu sem komin er upp hvað varðar útgjaldasamsetningu íslenska ríkisins sem, eins og ég vék að í andsvari við hæstv. ráðherra áðan, á sér ekki annað sambærilegt dæmi meðal nágrannaþjóða. Sú staða er uppi að við erum með til þess að gera hóflegar skuldir en gríðarleg vaxtagjöld sem hæstv. ráðherra gerði ágæta grein fyrir.

Mig langar aðeins að gera að umtalsefni möguleikann, í kjölfar samtals mitt við hæstv. ráðherra hér fyrr í kvöld, til að draga úr skuldum hins opinbera og hvernig við getum farið að því að bæta afkomu rekstrarins. Aðferðirnar eru í sjálfu sér bara tvær og þetta er ekki sérstaklega flókið; annaðhvort skerðu niður kostnað eða þú eykur tekjur.

Nú er staða Íslands þannig að ég held að það séu í sjálfu sér rök bæði fyrir því að skera niður í rekstri og auka tekjur. Ísland er ekki stórt. Það kerfi sem við höfum komið okkur upp til að stýra okkar samfélagi sækir hins vegar sína fyrirmynd í miklu stærri samfélög, samfélög sem telja tíu, hundrað, þúsund sinnum fleiri íbúa en hér. Það þarf í sjálfu sér ekki neina sérstaka greiningu til að átta sig á því að takir þú kerfi sem er hannað fyrir stórt samfélag og reynir að beita því fyrir lítið samfélag lendirðu í vandræðum með skölun kerfisins. Á endanum eru ríkisstarfsmenn bara heilar einingar, heilir einstaklingar eins og við öll. Við getum þar af leiðandi ekki með skilvirkum hætti skalað kerfið niður. Við þurfum eiginlega að sætta okkur við einfaldleika sem því miður hefur ekki verið nægilega mikil áhersla á að stuðla að í þessum sal í gegnum tíðina.

Ég efast ekki um að hvert einasta þingmál sem lagt hefur verið fram og samþykkt af Alþingi og ríkisstjórnum fyrri ára hefur verið lagt fram í góðri trú um að það myndi bæta samfélagið. Það sem gleymist hins vegar oft er að þessari lagasetningu fylgir kostnaður og sá kostnaður er tvíþættur: Annars vegar þarf að manna það að hafa eftirlit og framfylgja þeim lögum sem Alþingi setur. Hins vegar fellur kostnaður á þá sem þurfa að fara eftir reglunum, á fyrirtæki og einstaklinga sem þurfa að kynna sér lögin, fara eftir þeim og standa í samskiptum við hið opinbera vegna laganna. Þessi kostnaður er að jafnaði vantalinn. Ég held líka, vegna þess góða vilja sem sjálfsagt stýrir því að fólk býður sig fram til að sitja á Alþingi, að væntingar alþingismanna almennt til gagnsemi lagasetningar séu óraunhæft miklar og hugmyndir þeirra um kostnað lagasetningar óraunhæft lágar. Þetta vandamál hleðst upp og því verður tvímælalaust ekki snúið við á einum degi. En án þess að við gerum okkur grein fyrir þessari bjögun í ákvarðanatöku og þessum dulda kostnaði munum við aldrei snúa þeirri skútu við. Við munum smám saman grafa undan velferð á Íslandi og grafa undan samkeppni Íslands sem framtíðarbústaðar barnanna okkar.

Þegar kemur að tekjuhliðinni vil ég sérstaklega nefna tvo hluti. Ísland hefur eitthvert umfangsmesta vistspor allra landa í heiminum. Kolefnislosun á mann á Íslandi er með því hæsta sem þekkist. Fyrir því eru auðvitað margþættar ástæður og sumar ekkert endilega ómálefnalegar. Margt sem Ísland leggur fram er í sjálfu sér jákvætt, eins og t.d. að Ísland er umfangsmesti framleiðandi á vistvænni orku í heiminum, ef tekið er tillit til samfélagsins. Sem útflytjandi afurða vistvænnar endurnýjanlegrar orku getum við að einhverju leyti dregið úr vistspori framleiðslu annars staðar en það breytir því ekki að ef Ísland ætlar að standa við skuldbindingar sínar og fjárfesta í framtíð, ekki bara barnanna okkar heldur barna alls mannkyns, þurfum við að draga úr þessu vistspori. Skilvirkasta og ódýrasta leiðin til að ná þeim árangri er að beita hagrænum hvötum, grænum sköttum.

Ísland hefur beitt slíkum hvötum, m.a. á eldsneyti sem notað er á bifreiðar, og útvíkkað þá til að ná til annarrar eldsneytisnotkunar á landi með umtalsverðum árangri. Þar hefur þróunin því miður stöðvast. Ég hef með frekar miklum efasemdum skoðað hugmyndir núverandi ríkisstjórnar um hvernig eigi að ná markmiðum um samdrátt í losun og verð að viðurkenna að þar sakna ég þess mjög að við notum ekki þær aðferðir sem skilvirkastar eru til að draga úr losun. Ef þú leggur á græna skatta þarftu ekki að vita hver kostnaður þeirra sem greiða skattana er. Þú getur einfaldlega verið viss um að þeir reyni að komast hjá því að greiða skattinn og finni ódýrustu leiðina til þess. Frekar en að segja þeim hvað þeir eigi að gera, láttu þá hagnast á því að gera það sem er skynsamlegt.

Hitt atriðið hef ég áður gert að umtalsefni í þessum ræðustól. Það er vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi til lengri tíma og hvort ekki er ástæða til að staldra örlítið við og velta fyrir sér hvort það samfélag eða þau áhrif sem sú uppbygging hefur haft hafi öll örugglega verið til góðs og að það sé engin ástæða til að velta fyrir sér einhvers konar efri mörkum fyrir hana. Annars vegar snúa áhyggjurnar að svipuðum hlutum og grænu skattarnir, þ.e. vistspor ferðaþjónustunnar er auðvitað umtalsvert og við þurfum að reyna að stuðla að því að þessi atvinnugrein sé sjálfbær þannig að nýting hennar á náttúruauðlindum Íslands skilji þær ekki eftir í verra ástandi en við þeim var tekið. Hin áhrifin, sem eru nokkuð lúmsk, eru efnahagsáhrif ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem býr við mjög mikla samkeppni. Heimurinn er í sjálfu sér allur undir, sem þýðir að erfitt er að hagnast verulega á ferðaþjónustu nema þú búir við einhvers konar sérstöðu varðandi aðgengi að óvanalega fagurri náttúru eða menningarverðmætum.

Það sem við sjáum í ferðaþjónustu á Íslandi er að hún hefur verið gríðarlega fyrirferðarmikil á íslenskum vinnumarkaði. Við sjáum mikinn vöxt í eftirspurn eftir ófaglærðu vinnuafli. Við sjáum mikinn vöxt í tekjum ófaglærðra starfsmanna á Íslandi, sem er í sjálfu sér ekkert annað en afleiðing af mikilli eftirspurn umfram framboð þeirra hér á landi. Þetta er í sjálfu sér ekki áhættuefni; að ófaglærðum fjölgi og erlent ófaglært vinnuafl fái góð atvinnutækifæri með þokkalegum launum á Íslandi er ekki slæmt út af fyrir sig. Það sem er pínulítið áhyggjuefni eru áhrifin sem við sjáum á hagkerfið í heild sinni. Allt svigrúm hagkerfisins hefur verið notað til þess að bæta laun ófaglærðra. Allir aðrir hafa nokkurn veginn setið eftir. Hitt er að sá hagvöxtur sem stjórnvöld á Íslandi stæra sig af er fyrst og fremst drifinn áfram af innflutningi fleiri einstaklinga. Þjóðarframleiðsla á mann á Íslandi hefur nokkurn veginn staðið í stað, samkvæmt tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, síðan 2017.

Þegar maður tekur tillit til þess að framleiðni í ferðaþjónustu almennt í heiminum — Ísland er ekkert sérstakt þar — er lág og framleiðni þróunar mjög lítil vegna þess að þetta eru störf sem fyrst og fremst krefjast þjónustu, spyr maður sig: Hvaðan eiga tekjurnar til að standa undir samrekstri íslensks samfélags að koma ef þessi atvinnugrein fær að einoka íslenskt atvinnulíf? Ég er ekki að leggja til að henni sé rutt til hliðar, alls ekki. Margt mjög jákvætt hefur komið með þróuninni. Ég er einfaldlega að spyrja þeirrar spurningar: Ætti þessi vöxtur að fá að vera óheftur og ætti að niðurgreiða hann, eins og því miður er staðan í dag þar sem ferðaþjónustan er t.d. að jafnaði í lægra virðisaukaskattsþrepi og það að hefur lítið gengið að fá þá atvinnugrein til að greiða fyrir aðgang að þeim auðlindum sem hún notar?

Forseti. Ef ég tek saman orð mín þá tel ég augljóst að það séu umtalsverð tækifæri til hagræðingar í íslensku samfélagi. Það er ekki auðvelt verkefni en það er nauðsynlegt að einfalda samfélag okkar. Við höfum komið okkur upp strúktúr sem var hannaður fyrir miklu stærra samfélag. Ef við ætlum að bjóða hér samkeppnishæf skilyrði fyrir kynslóðir framtíðarinnar þurfum við að vinda ofan af flækjustiginu. Það eru augljósir tveir möguleikar á því að bæta afkomu hins opinbera og slá á þá þenslu sem hefur valdið bæði verðbólgu og vaxtahækkunum. Þeir felast annars vegar í grænum sköttum og hins vegar eðlilegri gjaldtöku á ferðaþjónustu.