154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:51]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ef ég raunverulega vissi nákvæmlega hvar við ættum að byrja á að einfalda þá myndi ég ekki liggja á svörum um það og myndi berjast fyrir því, en ætli þessi vandamál séu ekki býsna víða. Við sjáum glögglega á ákveðnum kennitölum um íslenskt samfélag hvað smæðin getur orðið mikið vandamál og, með leyfi forseta, vil ég fara með eitthvað sem mér var sagt en ég man nú ekki fyllilega hvar ég fékk þessar upplýsingar. Ef við tækjum stofnun eins og Seðlabanka Íslands og við bærum hana saman við seðlabanka Noregs og seðlabanka Bandaríkjanna, sem eru svona u.þ.b. tíu sinnum stærri og þúsund sinnum stærri samfélög, þá vinna eitthvað á þriðja hundrað manns í Seðlabanka Íslands. Ef hann væri jafn stór í umfangi á vinnumarkaði og seðlabanki Noregs þá ættu í kringum 20 manns að vinna í honum en ekki á þriðja hundrað. Ef hann væri jafn stór seðlabanka Bandaríkjanna að umfangi á vinnumarkaði þá ættu fimm manns að vinna hjá honum. Þetta er dæmi um kostnaðinn af smæðinni sem er raunverulegur og við þurfum að takast á við en er mjög lítill skilningur á. Ég held að það geti nú verið að það sé vilji hér í þessum sal til að skoða marga möguleika þar.

Varðandi ferðaþjónustuna þá tek ég undir orð hv. þingmanns að þetta er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og hefur skipt okkur miklu máli. Ég er ekki að tala um neitt annað en bara að óheftur vöxtur inn í framtíðina sé varhugaverður. Það er alveg ljóst að það væri hægt að fara þá leið að hækka skatta og það í sjálfu sér er til umræðu. Hér var flutt slíkt frumvarp af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra bara hér fyrr í kvöld. (Forseti hringir.) Önnur leið væri auðvitað að takmarka aðgang að sumum þeim auðlindum sem ferðaþjónustan notar.