154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála honum um það að það þarf að einfalda strúktúrinn og flækjustigið í íslensku samfélagi. Við verðum að muna að við erum einungis 370.000 á Íslandi. Það er eins og við áttum okkur oft ekki á því. Það er gríðarlega mikilvægt að við horfum á það með þeim hætti og það var ágætisdæmi sem hv. þingmaður kom með varðandi Seðlabankann, að ef við myndum miða við Noreg ættu 20 manns að vinna þar. Ég vil meina það að ef við ætlum að fara að einfalda strúktúr íslensks samfélags og stjórnkerfis þá eigum við að byrja á toppnum. Það myndi skapa ákveðið viðhorf sem myndi fara niður allt kerfið. En við þurfum að reka íslenskt nútímasamfélag. Og eins og Halldór Laxness sagði einu sinni, Nóbelsskáldið: Það er almennt dýrt að vera Íslendingur. En það er mikilvægt að byrja á toppnum og taka það síðan niður á við.

Varðandi vöxt í ferðaþjónustunni þá tel ég að það mætti auka skattlagningu þar þegar maður horfir svo á tekjur ríkissjóðs og þau útgjöld og stofnanir sem eru algerlega reknar á horriminni eins og Landhelgisgæslan. Ekki síður þegar maður horfir enn þá stærra á þetta, á stöðu öryrkja og aldraðra og á stofnanir eins og Landspítala og fleiri mjög mikilvægar stofnanir sem eru algjörlega skornar niður við nögl.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um vaxtagjöldin. Það er áætlað að vaxtagjöld á árinu 2023 verði 124 milljarðar. Það er aukning frá fjárlögum um 0,6%, sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, þ.e. 3% af vergri þjóðarframleiðslu fara í vaxtagjöld. Við erum að tala um 29,4 milljarða aukningu á vaxtagjöldum og ég get ekki séð það öðruvísi en að þetta sýni bara að við skuldum einfaldlega allt of mikið. Það eru að koma gríðarlegar og miklu meiri tekjur inn í ríkissjóð, 90 milljarða kr. betri afkoma, en þessir milljarðar eru ekki notaðir til að greiða niður vexti. (Forseti hringir.) Sér hv. þingmaður eitthvað á sjóndeildarhringnum um vilja ríkissjóðs til þess að keyra niður skuldasöfnun ríkissjóðs og þar með vaxtagjöld? Hversu miklar afleiðingar gæti þetta haft fyrir ríkissjóð?