154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:55]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar og við deilum þessum áhyggjum. Það sem er kannski grátlegast er að á því stutta tímabil í Íslandssögunni sem vextir héldust nokkuð hóflegir yfir nokkurn tíma þá skyldi ríkið ganga eins langt í að skuldsetja sig eins og raun ber vitni. Maður skyldi ætla að þar gerðu menn sér grein fyrir því að ef þú ætlar að skuldsetja ríkissjóð verður að gera kröfu um það að þær fjárfestingar sem réttlæta slíka skuldsetningu skili ávöxtun fyrir samfélagið sem nemur a.m.k. kostnaði þess að viðhalda skuldinni. Ég hygg því miður að að þessu hafi ekki verið gætt, menn hafi ofmetnast yfir frekar góðri stöðu ríkissjóðs í kjölfarið á uppgjöri föllnu bankanna og í kjölfarið á því almennt lága vaxtastigi sem var í heiminum í kjölfarið á því og því miður eytt um efni fram. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði hérna áðan að það er alveg ofsalega erfitt þegar þú sérð öll þau aðkallandi vandamál sem hægt væri að draga úr með auknum ríkisútgjöldum, að segja nei. Það er óvinsælt og leiðinlegt. En stundum er það nauðsynlegt.