154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[17:32]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir góðar viðtökur við frumvarpi mínu og þessar ágætu umræður sem hér hafa orðið. Þingmönnum hefur orðið tíðrætt um m.a. mikilvægi þess að eyða óvissu og ég vil fá að taka sérstaklega undir það sem margur hv. þingmaður hefur sagt um það, að óvissunni þurfi að eyða. Við erum stödd í miðri atburðarás, jarðfræðilegri atburðarás sem við vitum ekki hvar mun enda. Það er óvissa sem við ráðum ekki við en óvissa sem snýr að afkomu fólks, sem snýr að húsnæðismálum, óvissa sem snýr að því að búa til félagslegt og sálrænt öryggi fyrir fólk er eitthvað sem við getum í sameiningu haft áhrif á. Þetta frumvarp er mikilvægt vegna þess að það er hluti af því að eyða þessari óvissu.

Það þarf fleira að koma til. Það er verið að vinna að húsnæðismálum. Grindavíkurbær, í samstarfi við ríkið, er að vinna í þeim málum. Þegar er búið að úthluta yfir 100 fjölskyldum húsnæði en a.m.k. 600 fjölskyldur bíða. Það er verið að kortleggja þann þátt sérstaklega sem snýr að húsnæðinu þannig að það megi koma fólki í húsnæði sem helst hentar og ég sé ekki annað en að þessi mál ættu að ganga ágætlega fyrir sig í þessari viku og næstu, hvort sem við lítum þá til skemmri eða lengri tíma hvað varðar húsnæðismálin. Þá eru stjórnvöld líka að vinna að því með hvaða hætti er hægt að koma að frekari húsnæðisstuðningi sem er mikilvægur hluti af því að eyða óvissu um afkomu og þar koma inn fleiri aðilar eins og hér hefur verið tekið til umræðu í dag, m.a. bankar og lánastofnanir.

Svo vil ég nefna að lokum að verið er að taka sérstaklega utan um þá þætti sem snúa að samfélagslegum þáttum, ekki síst í Tollhúsinu hér í Reykjavík þar sem Rauði krossinn veitir aðstoð og tekur fólk í viðtöl sem það vilja. Þetta eru mikilvægir þættir einmitt til þess að draga úr þeirri óvissu sem óhjákvæmilega er fylgifiskur þeirra atburða sem hér hafa átt sér stað.

Mér finnst mjög gott að sjá samstöðuna hér á þingi í þessu máli og ég vil fá að þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir þá samstöðu og segja að lokum að ég veit að bæði ríkisstjórnin og Alþingi munu grípa Grindvíkinga.