154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[15:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, kannski er einhver meiningarmunur á pólitíkinni okkar enda er ég ekki í Framsóknarflokknum. En mér finnst skrýtið þegar gerðar eru áætlanir að þetta sé bara einhver framreikningur um óbreyttar tölur. Ég næ ekki utan um það af því að áætlanir eiga í raun og veru að reyna að fanga möguleikana eða þá þörf sem verður til staðar hverju sinni. Talan upp á 9,53 í fjögur ár er einhver tala sem mér þykir vera kúnstug.

Mig langar á þessum stutta tíma aðeins að minnast á hlutverk lífeyrissjóða. Það hefur verið rætt um það lengi að lífeyrissjóðir ættu að koma meira inn í fjármögnunina á húsnæðismarkaði en við vitum að lífeyrissjóðir eru nú þegar miklir lánveitendur á húsnæðismarkaði. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér aukna þátttöku? Þarf að gera einhverjar lagabreytingar til að lífeyrissjóðir (Forseti hringir.) fari meira inn í fjárfestingu í húsnæði eða eru einhverjar aðrar leiðir færar?