154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:06]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef spurningin væri einföld, væri hægt að vera með einfalt svar. Ef hv. þingmaður getur upplýst okkur um hvaða forsendur eru fyrir fólksfjölgun næstu tíu árin eða fólksfækkun, hversu margir eru tilbúnir að búa saman í íbúðum eða færri, í hvaða átt lýðfræðin er að færa okkur, hvort við erum að elta það sem við höfum verið að sjá gerast á Norðurlöndum eða hvort við erum að fara í einhverja aðra átt, þá væri hægt að svara þessu nákvæmlega. En auðvitað liggur svarið fyrir, á sama hátt og þetta er stefna um að ná jafnvægi, að án slíkrar stefnu, án framtíðarsýnar, án ólíkra sviðsmynda þá náum við því aldrei. En með því að setja fram langtímastefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára til að takast á við þær áskoranir sem við erum með núna þá er líklegra að við náum því jafnvægi sem stefnt er að, en ella náum við því aldrei.