154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[17:02]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að tala hérna um eitt aðalmarkmiðið. Ég talaði of lengi um hin markmiðin sem eru fjögur og ég taldi upp áðan. Það er þriðja markmiðið sem fjallað er um, að landsmenn „búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum með því að sköpuð verði skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.“

Undanfarið, frá hruni, má segja að við höfum búið við leiguliðavæðingu á húsnæðismarkaði. Hér áður fyrr bjuggu Íslendingar í sínu eigin húsnæði. Vissulega er mikilvægt að það sé virkur leigumarkaður og það allt en mér skilst á tölum að 90% af þeim sem eru í leiguhúsnæði vilji búi í eigin húsnæði. Þetta er stórt vandamál, að einstaklingar hafi ekki efni á því að fara inn á húsnæðismarkaðinn, kaupa sitt eigið húsnæði, eiga sitt eigið húsnæði og borga af láninu. Þeir hafa ekki efni á því og það er stórkostlegt vandamál. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig vandamálið er þegar við erum með 9,25% stýrivexti í landinu og verðbólgan fer vaxandi. Hún fer ekki minnkandi miðað við það sem við heyrðum hjá seðlabankastjóra í morgun og markaðurinn er nánast botnfrosinn. Fólk er að fara að missa heimili sín út af þessum háa vaxtakostnaði og það er snjóhengja sem vofir yfir samfélaginu sem á eftir að dembast yfir samfélagið þegar fólk hefur ekki efni á að greiða af húsnæðislánum sínum og ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn.

Orsökin fyrir þessu er mikið til fjármálavæðing húsnæðis sem hefur átt sér stað á Vesturlöndum og m.a. á Íslandi. Það er farið að líta á fjárfestingu í húsnæði eins og fjárfestingu í hlutabréfum. Þeir sem hafa aukafé milli handanna eru að kaupa sér aukahúsnæði til að fjárfesta og ávaxta fé sitt en ekki að kaupa hlutabréf eða skuldabréf eða gera það með öðrum hætti. Þetta leiðir til hækkunar og leiðir til þess að leigumarkaður af þeirri tegund vex. Við eigum að sporna við þessu. Þegar einstaklingur er að leigja sína aðra, þriðju eða fjórðu íbúð þá eiga að vera auknir skattar af þeim tekjum. Norðmenn gera það og við eigum að gera það. Það er líka þannig að ef þú tekur lán fyrir húsnæði sem er annað eða þriðja húsnæði þá færðu minni lánafyrirgreiðslu. Þú getur ekki bara notað eigið fé að hluta og svo látið leigjanda borga niður kannski helming, 60% eða helminginn, af láni á húsnæðinu. Gegn þessari fjármálavæðingu eiga stjórnvöld að spyrna fótum með skattkerfinu og með lánafyrirkomulaginu.

Varðandi markmiðið, þriðja markmiðið sem ég las upp hér áðan, þá er það brotið niður í 14 hluta. Einn hlutinn er endurskoðun lánaheimilda með tilliti til almannaþjónustuhlutverks Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á húsnæðismarkaði. Markmiðið þar er að tryggja tekju- og eignaminni einstaklingum og fjölskyldum, fyrstu kaupendum, heimilum með þunga framfærslubyrði og þeim sem búa við markaðsbrest á húsnæðismarkaði aðgengi að húsnæðislánum. Lánin verði enn fremur veitt til lögaðila og sveitarfélaga vegna húsnæðis fyrir þessa hópa. Að sjálfsögðu er gríðarlega mikilvægt að koma til móts við þessa hópa en það verður ekki einungis gert með auknum lánveitingum. Ég tel það hafa verið stórkostleg mistök hjá íslensku samfélagi þegar við lögðum niður félagslega húsnæðiskerfið. Við verðum að tryggja að tekjulægstu hóparnir hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði. Það verður hreinlega að gerast. Þá erum við að tala um eins konar félagslegt kerfi.

Annað undirmarkmiðið, með leyfi forseta, er að húsnæðisstuðningurinn „nýtist í auknum mæli til að auka framboð öruggra og góðra íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.“ Þetta er vissulega göfugt markmið en þarna verður að koma til móts við þá tekjulægstu, tekjulægstu tíundina, ekki tekjulægstu 20 prósentin.

Hérna er einnig fjallað um húsnæðisöryggi leigjenda, sem er gott, og líka að fjármögnunarkostnaður byggingaraðila í almenna íbúðakerfinu verði lækkaður og greind verði þörf fyrir félagslegt húsnæði sveitarfélaga, sem er gríðarlega mikilvægt. Það er þarna sem þarf að koma til móts við fátækasta fólkið. Fjölbreyttir búsetukostir fyrir eldra fólk, fatlað fólk og heimilislaust fólk eru líka eitt af undirmarkmiðunum. Það er þarna sem ríkið þarf að beita sér, það er þarna sem ríkið þarf að koma inn með fullum krafti til að bæta stöðu þessa hóps. Það er algerlega óásættanlegt að ungt fólk og fátækt fólk og tekjulægstu tíundirnar tvær hafi ekki aðgang að húsnæði og þurfi að sætta sig við það að vera upp á leigumarkaðinn komin. Það er algerlega óásættanlegt. Það hlýtur að vera verkefni okkar allra að stuðla að því að allir geti eignast þak yfir höfuðið. Það verður einungis gert með því að taka á þessari fjármálavæðingu sem átt hefur sér stað.