154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Náttúruhamfaratrygging Íslands.

206. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Frú forseti. Við höfum verið minnt á það á undanförnum vikum að við búum í landi þar sem náttúruhamfarir geta gerst. Við Íslendingar vöknuðum upp við vondan draum fyrir 50 árum síðan þegar gos hófst í Heimaey og við áttuðum okkur á því að það væru í rauninni engar tryggingar og ekki neitt sem næði yfir það þegar húsnæði og innbú fólks eyðileggst í náttúruhamförum. Árið eftir fylgdu mikil snjóflóð á Neskaupstað og í kjölfarið á þeim var farið í að búa til það sem í dag kallast Náttúruhamfaratrygging Íslands. En það er mikilvægt að átta sig á því að Náttúruhamfaratrygging Íslands er í rauninni tryggingafyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins og sérhæfir sig í að tryggja fyrir því sem getur gerst þegar náttúruhamfarir dynja yfir en venjulegar tryggingar ná einmitt ekki til þess.

Þær stærstu hamfarir sem hingað til hefur þurft að takast á við í gegnum náttúruhamfaratryggingarnar var jarðskjálftinn á Suðurlandi 2008. Eitt af því sem gerðist á þeim tíma sem er vert að hafa í huga, sér í lagi þegar ég fer að tala um hvaða breytingar við erum að leggja til, er að þar var allt í einu ákveðið eftir að skjálftinn gerðist að það væri engin lágmarksfjárhæð tjóns sem þyrfti að hafa orðið, náttúruhamfaratryggingarnar myndu dekka það allt saman. Það að breyta reglum eftir á er alls ekki gott, a.m.k. ekki þegar það er gert á þennan máta og það höfðum við í huga þegar við vorum að vinna þetta frumvarp.

Þetta frumvarp var fyrst lagt fram síðasta vor. Það kom til vegna þess að enn og aftur dundu hamfarir yfir Neskaupstað. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að heimsækja Norðfjörð akkúrat nokkrum dögum eftir þetta snjóflóð og fá að tala við Norðfirðinga, vita hvað þau voru upplifa og hvernig var verið að taka á þeirra málum. Og þá komst ég að því að til þess að draga úr því að það væri ekki bara hver sem er sem væri að sækja um fyrir alls konar lítil tjón þá hefði verið gerð breyting hér á Alþingi eftir skjálftann árið 2008 þar sem settar voru inn kröfur um ákveðna sjálfsábyrgð. Það er akkúrat sú krafa sem við teljum vera mjög óréttláta vegna þess að þegar þú missir húsið þitt og innbú þá er það mjög alvarlegt, alla vega í okkar huga sem stöndum á bak við þetta frumvarp, að það sé verið að krefja þig um eigin ábyrgð upp á allt að 1 millj. kr. Ástæðan fyrir því að eigin ábyrgðin var sett inn var til að lágmarka það hversu mörg tjón þyrfti að bæta vegna þess að þau vildu ekki þurfa að hugsa um öll litlu tjónin sem fara undir þessa upphæð. En það gerir það að verkum að ef þú átt innbú þá getur lækkað sú upphæð sem þú færð og ef þú átt hús þá lækkar líka hvað þú færð af því að það er alltaf þessi eigin ábyrgð sem er þarna inni.

Nú erum við að sjá skelfilega atburði gerast í Grindavík og við vitum ekki enn þá hvernig þeir atburðir enda, hversu mörg hús verða skemmd eða talin ónýt og því mikilvægt að við horfum til þess að þeir sem eiga þar um sárt að binda og eru að missa húsin sín þurfi ekki að standa uppi með það að hafa tapað allt að milljón krónum, einungis vegna þess að það er verið að passa upp á þessa lágmarksfjárhæð sem er tryggð, að hún sé ekki of lág. Það er einmitt sú tillaga til breytingar sem við leggjum til. Við leggjum til að í stað þess að sett sé sjálfsábyrgð þá verði lágmarksfjárhæðir þess vátryggða, þ.e. ekki sé hægt að biðja um bætur þegar tjón á innbúi er minna en 200.000 kr., þegar tjón á húseignum er minna en 400.000 kr. eða tjón á opinberum mannvirkjum er undir 1 millj. kr. Við leggjum einnig til að þessar breytingar öðlist gildi frá og með 25. mars 2023 en það er einmitt nokkrum dögum áður en hið skelfilega snjóflóð féll á Neskaupstað nú í vor.

En við þurfum einmitt að passa okkur á því að í svona tryggingaumhverfi þá eru Náttúruhamfaratryggingar Íslands með endurtryggingu og endurtryggingin er í rauninni samningur á milli tryggingafélagsins og endurtryggingafélagsins um það hvaða hluta endurtryggingafélagið mun borga. Ef sú upphæð sem Náttúruhamfaratrygging þarf að greiða út til fólks hækkar stórlega þá hefur það áhrif á endurtrygginguna og við viljum alls ekki gera það vegna þess að það gerðist árið 2008 með því að ráðherra sem stóð þar var spurður og hann sagði: Við borgum öll tjón. Það viljum við alls ekki gera, ekki breyta samningunum þannig að þetta hafi áhrif á náttúruhamfaratryggingarnar sjálfar og þess vegna leggjum við til að eigin ábyrgðin sem væri felld niður með þessu frumvarpi verði greidd beint úr ríkissjóði en ekki af Náttúruhamfaratryggingu. Þannig erum við að reyna að passa upp á að þetta hafi ekki alvarleg áhrif á endurtryggingaskilmálana. Það væri mjög slæmt vegna þess að það myndi gera það að verkum að það yrði mjög erfitt fyrir Náttúruhamfaratryggingu að fá endurtryggingar í framtíðinni. Við viljum gera þetta á réttan máta og fengum einmitt góðar leiðbeiningar frá Náttúruhamfaratryggingu um hvaða hluti mætti alls ekki gera og reyndum að halda okkur innan við það.

Á bak við þetta frumvarp standa þingmenn Pírata, þingmenn úr Flokki fólksins, Vinstri grænum og Samfylkingunni, og það er von okkar að þessum góðu hugmyndum um það hvernig við getum virkilega staðið við bakið á fólki, bæði á Norðfirði og í Grindavík, verði vel tekið af ríkisstjórn og þinginu þó að þær komi frá okkur sem sum hver erum í stjórnarandstöðu því að góðar hugmyndir eru alltaf góðar hugmyndir og þá sérstaklega núna á þessum erfiðu tímum þar sem við virkilega þurfum að standa með fólki sem er í neyð.