154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Já, tölum aðeins um fjárlögin. Það er búið að fresta 2. umræðu fjárlaga um tvær vikur að mér skilst. Það átti að ræða þau í þessari viku og það bólar ekkert á því. Við vitum svo sem ekki hvort sú áætlun stenst heldur. Þar eru auðvitað mikilvæg viðbrögð að finna en það virðist líka ætla að verða einu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við því efnahagsástandi sem við búum við akkúrat núna. Það er enn þá töluverð bið í það miðað við nýjustu fregnir.

Annars vildi ég bara koma hingað inn og árétta það sem við höfum áður heyrt frá stjórnarliðum, ástæðuna fyrir því að þau eru glöð að leyfa okkur að taka upp dagskrá þingsins, en það er til að breiða yfir verkleysi þeirra. Þau hleypa engum málum á dagskrá nefnda vegna þess að, eins og hæstv. utanríkisráðherra komst svo skýrt að orði fyrir ári síðan í þessum ræðustól, þau samþykkja ekki eða styðja við mál stjórnarandstöðunnar prinsippsins vegna, (Forseti hringir.) þá burt séð frá hvort það séu góðar hugmyndir eða vondar.