154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðir í húsnæðismálum og stuðningur við barnafjölskyldur.

[11:06]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra veit það betur en ég, en það bendir nefnilega allt til þess að það verði ekkert gert í vaxta- og húsaleigubótum í þessum fjárlögum eða í barnabótum. Vaxtabætur lækka á milli ára um 25%. 5.000 manns detta út úr kerfinu á milli ára að öðru óbreyttu. Húsnæðisbætur lækka þó að leiguverð hafi hækkað á árinu og barnabætur til tekjulægstu heimilanna lækka að raunvirði milli ára vegna mikillar verðbólgu. Þetta er það sem verið er að ræða hér inni. Það hefur ekkert frumvarp komið fram um breytingar á húsaleigulögum til að styrkja stöðu leigjenda þrátt fyrir margítrekuð loforð frá hæstv. innviðaráðherra. Það er engin leigubremsa og lítið gerist þrátt fyrir áframhaldandi þrýsting á húsnæðismarkaði. Þetta eru staðreyndir málsins og ekki bara pólitískt karp.

Þetta veldur vonbrigðum, sérstaklega á tímum þar sem samstöðu er raunverulega þörf. Samfylkingin hefur sagt það skýrt hér inni að við munum styðja við stjórnvöld í öllum aðgerðum fyrir Grindvíkinga en þá þarf líka að vera alveg skýrt að ríkisstjórnin getur ekki skilað af sér óábyrgum fjárlögum í skjóli jarðhræringa og áhrifa þeirra. Þvert á móti er það lykilatriði, bæði fyrir Grindvíkinga og almenning allan, að ríkisstjórnin noti núna tækifærið sem hún hefur við gerð fjárlaga til að styrkja getu okkar til að takast á við áföll og til að styrkja grunnsamstöðu í íslensku samfélagi. Hvenær ef ekki núna? Hvenær er rétti tíminn til að grípa til róttækra aðgerða á húsnæðismarkaði til að koma í veg fyrir að aukinn þrýstingur, hvort sem það er af völdum náttúruvár eða brothættrar stöðu til að byrja með, lendi allur á íslenskum almenningi? Það eru til tæki sem við vitum að virka strax; húsnæðisstuðningur, styrking á réttarstöðu leigjenda, tímabundin leigubremsa, fjármagnaðar kjarabætur sem skila sér strax til fólks og draga úr verðbólgu, þrýstingi og vaxtastigi.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvað er því til fyrirstöðu að koma bara með þessi frumvörp inn í þingið og afgreiða hérna fyrir jól?