154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

ráðstafanir til varnar byggð í Grindavík.

[11:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég geri ekki lítið úr mikilvægi þess að verja orkuverið en það er líka gríðarlega mikilvægt að verja byggðina í Grindavík ef þess er einhver kostur. Það er ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa því hér og upplýsa okkur um að búið sé að hanna varnarmannvirki og þá er spurningin einfaldlega: Hvenær meta stjórnvalda það sem svo að það sé tímabært að ráðast í framkvæmdir þar? Spár segja að ef gos kæmi upp þá yrði það líklega í grennd við Sundhnúkagíga. Þær lágu fyrir áður en framkvæmdir hófust við varnargarðana við Svartsengi. Þá var flest farið að benda til þess að mest virkni væri þarna norðaustur af Grindavík og nú virðast menn orðnir það vissir í sinni sök, þó að menn geti auðvitað aldrei verið vissir um neitt á þessu sviði, að þeir telja óhætt að hleypa íbúum til Grindavíkur vegna þess að verði gos þá verði það líklega í þessari fjarlægð. (Forseti hringir.) Er þá ekki tímabært að taka næstu skref í þessum vörnum?