154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[12:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þessi umræða er um margt sérstök. Hér hefur hæstv. ráðherra og svo hver þingmaðurinn á eftir öðrum, bæði úr meiri hluta og minni hluta, komið upp og lýst eindregnum stuðningi við Landhelgisgæsluna, eins og vænta mætti. En samt eru fjárlögin og fjármálaáætlun eins og þau eru. Hvernig stendur á því, frú forseti? Er eitthvert innihald í því þegar stjórnarliðar koma og lýsa yfir miklum stuðningi við grunnstofnanir eins og Landhelgisgæsluna en haga málum svo með allt öðrum hætti?

Landhelgisgæslan er ein af grunnstoðum samfélagsins, sérstaklega fyrir herlausa þjóð og þjóð sem náttúrunnar vegna getur þurft, hefur oft þurft og mun þurfa á öflugu björgunarliði að halda. Mér er óskiljanlegt hvernig þessari ríkisstjórn hefur tekist, eftir öll sín met í útgjaldaaukningu og heildarríkisútgjöldum, að vanrækja grunnstoðir eins og Landhelgisgæsluna. Það er reyndar mjög erfitt að átta sig á því í hvað allir þessir peningar fóru, öll þessi met í útgjaldaaukningu. Hvað fengum við fyrir það? A.m.k., enn sem komið er, ekki öflugri Landhelgisgæslu heldur stofnun sem þarf að vera í aukahlutverki sem flugvélaleiga. Það er ekki hægt að bjóða Landhelgisgæslunni upp á þetta og nú þurfa hv. þingmenn meiri hlutans og hæstv. ráðherra að sýna að þeim sé alvara með þeim orðum sem hafa fallið í þessari umræðu í dag.