154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

Staða Landhelgisgæslunnar.

[12:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég fagna því að við séum að ræða stöðu Landhelgisgæslunnar hér í dag í þessari umræðu og viðurkenni að ég er aðeins lituð í umræðunni af því að sitja í fjárlaganefnd og því hvernig málum lyktaði við afgreiðslu fjárlaga í fyrra. Það sem kom aftan að okkur nefndarmönnum, a.m.k. minni hlutans, um hver staðan væri var að skyndilega birtust fréttir af því að það þyrfti að selja vél vegna stöðu Gæslunnar. Grundvallarmál, þjóðaröryggismál, hafði ekki verið til umræðu í utanríkismálanefnd og því hafði ekki verið flaggað í fjárlaganefnd að þetta væri staðan. Mér finnst skipta máli að við náum fram svörum frá hæstv. ráðherra við þeim spurningum sem hér liggja. Það dugar ekkert að hér komi stjórnarþingmenn og tali um mikilvægi málaflokksins. Tölurnar tala sínu máli. Það er auðvitað þannig að það er frumskylda á ríkinu að gæta öryggis almennings og sú krafa getur ekki verið veikari í landi eins og Íslandi þar sem veðrin eru eins og þau eru. Við erum búsett á eyju og við bætast síðan þær sögulegu aðstæður sem núna eru uppi. Þetta er frumskylda ríkisins en þetta er jafnframt grunnþjónusta. Mér finnst umhugsunarvert að þessi staða Landhelgisgæslunnar er óskaplega hliðstæð því sem við sjáum í löggæslunni líka, sem við sjáum í fangelsunum líka, sem við sjáum hjá konum sem afplána dóma, sem við sjáum birtast í því að dæmdir dómar fyrnast vegna þess að Fangelsismálastofnun getur ekki boðað menn til afplánunar. Meira að segja í þeim málum sem fara í gegnum kerfið þá er ekki gefið að þú getir afplánað fangelsisdóm á Íslandi vegna þess hvernig þau mál hafa verið fjármögnuð í gegnum tíðina. Það hrópar auðvitað á mann, því miður, að það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið með þetta ráðuneyti núna til margra ára. Og svona birtast öryggismálin okkar mjög skýrt þegar kemur að fjármögnun.