154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

uppbygging Suðurfjarðavegar.

82. mál
[15:46]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu Suðurfjarðavegar. Ásamt mér eru á tillögunni hv. þingmenn Berglind Harpa Svavarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson. Ályktunin gengur út á að Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að flýta uppbyggingu Suðurfjarðavegar, þ.e. þjóðvegar 1, frá Reyðarfirði til Breiðdalsvíkur, á austursvæði í samgönguáætlun. Hönnun og útboði á uppbyggingu vegarkaflans verði flýtt og fari fram á yfirstandandi kjörtímabili.

Í greinargerð kemur fram að þingsályktunartillaga þessi hafi áður verið lögð fram á 152. og 153. löggjafarþingi.

Með sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð, nú síðast Breiðdalsvík sem sameinaðist Fjarðabyggð árið 2018, telst Suðurfjarðavegur þjóðvegur í þéttbýli. Með kraftmikilli uppbyggingu atvinnulífsins á undanförnum árum hefur umferð aukist á svæðinu, m.a. vegna skóla-, þjónustu- og atvinnusóknar innan sameinaðs sveitarfélags, ferðaþjónustu og síðast en ekki síst stórfelldra vöruflutninga til og frá höfnum svæðisins vegna álframleiðslu, öflugs sjávarútvegs og laxeldis, svo að dæmi séu nefnd.

Ljóst er að Suðurfjarðavegur er mikill farartálmi með hættulegum vegarköflum og þremur einbreiðum brúm, þar með talið brúnni yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem er umferðarþyngsta einbreiða brúin á Austurlandi. Vegarkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar þykir sérlega hættulegur með mörgum blindhæðum og kröppum beygjum og er auk þess að mestu leyti utan þjónustusvæðis farsímasambands. Suðurfjarðavegur er 33,7 km langur.

Kaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur hefur verið metinn áhættumesti vegarkafli landsins í áraraðir í skýrslum EuroRAP um öryggi vega. Í skýrslum EuroRAP er horft til þess hvar flest alvarleg slys verða miðað við umferðarþunga, þ.e. látnir og alvarlega slasaðir á hverja milljón ekna kílómetra. Þá er kaflinn metinn einnar stjörnu vegur af fimm mögulegum í öryggisskoðun EuroRAP, sem metur öryggi vegarins og öryggissvæðisins sem fylgir veginum.

Á undanförnum árum hafa orðið alvarleg slys á þessum kafla. Í ljósi þess hve hættulegur vegarkaflinn er og með tilliti til ört vaxandi umferðarþunga, m.a. þungaflutninga, þarf að setja Suðurfjarðaveg í forgang í samgönguáætlun.

Það komu inn umsagnir til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar við málið í fyrra. Í umsögn Fjarðabyggðar, sem tekur heils hugar undir þingsályktunartillöguna, kemur fram að Suðurfjarðavegur sé hluti af hringveginum og eina samgönguæð á landi um Fjarðabyggð sunnanverða. Veginn ætti því að skilgreina sem þjóðveg í þéttbýli. Umferð á svæðinu hafi aukist verulega, m.a. vegna sameiningar sveitarfélaga, aukins umfangs ferðaþjónustu og vöruflutninga vegna álframleiðslu, sjávarútvegs og laxeldis, svo að dæmi séu tekin.

Enn fremur kemur fram í umsögn Fjarðabyggðar, með leyfi forseta:

„Sameinað og víðfeðmt sveitarfélag eins og Fjarðabyggð á mikið undir greiðum og öruggum samgöngum. Skóla-, þjónustu- og atvinnusókn innan Fjarðabyggðar líður verulega fyrir þær hindranir sem ástand vegarins veldur en hann er engan veginn fallinn til þess að teljast öruggur eða greið samgönguleið. Kaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur er metinn áhættumesti vegarkafli landsins í skýrslum EuroRAP um öryggi vega eða einnar stjörnu vegur af fimm mögulegum. Hættulegir vegarkaflar með einbreiðum brúm, þar með talið brúnni yfir Sléttuá á Reyðarfirði sem er umferðarþyngsta einbreiða brúin á Austurlandi. Vegarkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar er sérlega hættulegur með mörgum blindhæðum og kröppum beygjum. Á undanförnum árum hafa orðið alvarleg slys á þessum kafla.“

Síðan kom líka umsögn frá Vegagerðinni í fyrra. Með leyfi forseta ætla ég rétt að lesa upp úr henni þar sem eftirfarandi kemur fram:

„Vegagerðin tekur undir mikilvægi þess að endurbyggja Suðurfjarðaveg milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Núverandi vegur er á mörgum stöðum með lélega hæðar- og planlegu og með heilli miðlínu vegna skertrar vegsýnar. Breidd slitlags er almennt um 6,5 m breitt en með litlum öryggissvæðum utan vegar. Slysatíðni sem mæld er í fjölda slysa á hverja milljón ekna kílómetra hefur farið lækkandi á undanförnum árum á þjóðvegakerfinu. Árið 2021 var slysatíðni á þjóðvegum í dreifbýli sem eru í umsjón Vegagerðarinnar 0,49 slys fyrir hverja milljón ekna kílómetra.“

Tafla fylgir umsögn Vegagerðarinnar og þar er einmitt bent á að almennt á þjóðvegi 1 séu 0,49 slys eða óhöpp á hverja milljón ekna kílómetra, en á þessum kafla á Suðurfjarðavegi er þessi slysatíðni 1,07 að meðaltali fyrir árin 2017–2021, þótt það sé rétt að taka fram að það er mjög ánægjulegt hversu vel hefur gengið að lækka slysatíðnina á undanförnum árum eins og við þekkjum. En eins og frú forseti þekkir úr sinni heimasveit þá er mikilvægt að fá þessar vegbætur í gegn.

Ef við förum í þá samgönguáætlun sem mælt hefur verið fyrir og var í samráðsgátt í sumar og er núna í umhverfis- og samgöngunefnd þá var á tímabili nýrrar samgönguáætlunar gert ráð fyrir framkvæmdafé upp á 7,5 milljarð kr. í þessa framkvæmd en það er fyrir seinni hluta framkvæmdarinnar. Á því sem við myndum kalla fyrsta hlutann, sem er eiginlega framkvæmdaáætlun næstu fimm ár, hitt er á seinni hlutanum, tíu árunum þar á eftir, þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við Suðurfjarðaveg í botni Reyðarfjarðar, við Sléttuána og brúna þar, upp á 670 milljónir kr. 2027 og síðan aftur 630 milljónir kr. 2028. Síðan í öðrum og þriðja áfanga framlagðrar samgönguáætlunar árin 2024–2038, í seinni hlutanum, eru þetta væntanlega um 6,3 milljarðar kr. í þessa framkvæmd.

Þetta er bara mikilvægt mál. Samgöngur á svæðinu eiga mikið undir þessu. Við sem höfum keyrt þennan veg, sérstaklega í sunnanverðum Fáskrúðsfirði — eins og virðulegur forseti þekkir er það einkar hættulegur vegur og maður finnur það bara þegar maður keyrir þarna um að þetta er ekki nægilega góð staða. Ég vona að þetta fari sem best fram og við náum að flýta sem mest framkvæmdum við þessa mikilvægu framkvæmd.