154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

uppbygging Suðurfjarðavegar.

82. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt skemmtilegasta andsvar sem ég hef fengið. [Hlátur í þingsal.] Og svaraðu nú, segir frú forseti, svaraðu nú. Auðvitað hefur það gríðarlega mikið að segja með ráðherrana og samgönguráðherra, innviðaráðherra eða hvað viljum kalla það í dag, hefur náttúrlega mikið vægi í landsbyggðarkjördæmunum. Við sjáum það svo sem alveg í gegnum tíðina hvar hefur verið framkvæmt hverju sinni. Það er rétt að þegar Halldór Blöndal var samgönguráðherra — ég man ekki, 1991, 1994 eða 1995, þetta var fyrir um 30 árum — hafði það gríðarleg áhrif á margar af þeim framkvæmdum þar sem við erum að fara um í dag og þar voru teknar mjög margar stórar ákvarðanir. Hins vegar varðandi ráðherradóm og annað eða að vera hér í þinginu þá er líka hægt að hafa gríðarleg áhrif sem þingmaður á réttum stöðum með réttan málflutning og vera í málunum, að koma þeim áfram. Þá tek ég sem dæmi að það er bara einn ráðherra í sjálfu sér sem er að beita sér í samgöngumálum og tala fyrir þeim. Þetta er ekki fjölskipað vald þannig að ráðherra er yfirleitt ekki að skipta sér af því hvað næsti hæstv. ráðherra gerir með sína málaflokka. Þannig að ég myndi aldrei tala niður hinn almenna þingmann sem hefur þekkingu á að koma málum á framfæri og berjast í þeim, að þau nái framgöngu. Reynslan hér í gegnum tíðina er kannski sú hvað það tekur oft óralangan tíma að ná framgöngu í málum en allt einhvern veginn puðast þetta áfram. Þetta gengur hægt og rólega, en þetta getur tekið tvö, þrjú, fjögur, fimm ár og jafnvel lengur frá því að hugmynd kemur fram og síðan þarf að tala fyrir henni og ná framgangi og málin hafa svo sem verið að detta inn.