154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

[15:05]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Í síðustu viku spurði ég hæstv. forsætisráðherra. Hvenær ef ekki núna? Hvenær er rétti tíminn fyrir róttækar aðgerðir á húsnæðismarkaði, ef ekki núna? Núna er íbúðaverð aftur á uppleið, verðbólga há og vextir allt of háir. En hvað er ríkisstjórnin að gera til að milda höggið fyrir venjulegt fólk á húsnæðismarkaði? Engin leigubremsa, engin stjórn á Airbnb, ekkert frumvarp frá hæstv. innviðaráðherra enn þá til að styrkja réttarstöðu leigjenda þrátt fyrir margítrekuð loforð frá gerð síðustu kjarasamninga. Það sem er kannski verst á þessum tímapunkti er að nú hefur ríkisstjórnin kynnt fjárlög þar sem húsnæðisbætur lækka og vaxtabætur lækka um 25% á milli ára. Ríkisstjórnin er að henda 5.000 manns út úr vaxtabótakerfinu samkvæmt fjárlögum næsta árs og nú stefnir í að stjórnin geri engar breytingar þar á. Þannig að verðbólga upp en húsnæðisbætur niður, vextir upp, vaxtabætur niður.

Ég spyr: Hvers konar skilaboð eru þetta til launafólks í aðdraganda kjarasamninga núna í janúar? Á erfiðum tímum þegar þrengist um á húsnæðismarkaði er beinlínis ótrúlegt að ríkisstjórnin sé að lækka húsnæðisbætur til leigjenda og henda 5.000 manns út úr vaxtabótakerfinu. Samfylkingin styður stjórnvöld í öllum aðgerðum fyrir Grindvíkinga en ég ítreka að ríkisstjórnin getur ekki skilað af sér óábyrgum fjárlögum í skjóli jarðhræringa og áhrifa þ Þvert á móti er lykilatriðið núna fyrir Grindvíkinga og allan almenning að ríkisstjórnin noti fjárlögin til að styrkja grunnsamstöðu í íslensku samfélagi. Í fyrra kynnti Samfylkingin kjarapakka með tillögu um að verja heimilisbókhaldið og vinna um leið gegn verðbólgu og við munum kynna sams konar kjarapakka fljótlega. Kemur til greina hjá hæstv. ráðherra, formanni Framsóknarflokksins, að samþykkja breytingartillögur frá Samfylkingunni sem myndu tryggja að húsnæðisbætur og vaxtabætur lækki ekki á milli ára í því ástandi sem nú er uppi á húsnæðismarkaði?