154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

[15:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við styðjum öll auðvitað aðgerðir sem snúa að langtímauppbyggingu en staðreyndin er sú að frá því að við stóðum hér í þessari pontu í fyrra og samþykktum fjárlög, þar sem m.a. ríkisstjórnin ákvað að samþykkja breytingartillögur Samfylkingarinnar sem komu í veg fyrir að 5.000 manns yrði hent út úr vaxtabótakerfinu, hefur vaxtastig farið úr 6% í 9%. Í millitíðinni á að henda næstum því sömu aðilum aftur út úr kerfinu. Ég velti því bara fyrir mér hvort ríkisstjórnin átti sig á ábyrgðarhlutverki sínu í aðdraganda kjarasamninga þar sem væri hægt að horfa á vaxtabótakerfið sem ákveðinn ventil í launahækkunum. Það er það sem þarf að horfa til. Ef vaxtahækkanir eru aðaltólið sem verður beitt verður það bara til þess að setja flata álagningu á öll heimilin í landinu og þrýstir á meiri launahækkanir á næsta ári.

Ég vil því ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Kemur það til greina að samþykkja slíka tillögu í ljósi þess að við erum að fara inn í kjarasamninga?